Erlent

Útlit fyrir að breska þingið samþykki kosningatillögu Johnsons

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Breska þingið ræðir nú um enn eina tillögu ríkisstjórnarinnar um að boða til þingkosninga. Sú breyting hefur orðið frá því í gær að stjórnarandstaðan styður tillöguna.

Ekki náðist meirihluti um að boða til kosninga í gær. Tvo þriðju hluta þingmanna þarf til að boða til kosninga en einungis tæpur helmingur stóð með Boris Johnson forsætisráðherra í því að boða til kosninga þann 12. desember næstkomandi.

Var þetta í þriðja skipti sem honum mistekst að knýja fram kosningar. En Johnson gefst ekki upp og fékk góðar fréttir frá andstæðingum sínum í dag. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, tilkynnti nefnilega um að flokkurinn ætlaði sér að styðja tillöguna. Skoski þjóðarflokkurinn og Frjálslyndir demókratar styðja tillöguna einnig.

Samþykkt var að leyfa breytingartillögur við kosningatillöguna og hafa þær tillögur verið til umræðu í dag. Á meðal þess sem lagt er til er þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngusamninginn, að kosningaaldur verði lækkaður niður í sextán ár og að ríkisborgarar Evrópusambandsríkja sem búsettir eru á Bretlandi fái að kjósa.

Fylgi flokka á Bretlandi
Kannanir sýna Íhaldsflokkinn með mest fylgi eða 36 prósent, fékk 42 prósent árið 2017. Verkamannaflokkurinn mælist næststærstur með 24 prósent en hafði fjörutíu. Frjálslyndir Demókratar mælast með átján prósent, höfðu sjö, og hinn nýi Brexitflokkur með ellefu. Græningjar fengju fjögur prósent, höfðu 0,2.

Vert er að taka fram að Velsku og Skosku þjóðarflokkarnir bjóða eingöngu fram í Wales og Skotlandi. Þar sem einmenningskjördæmi eru í Bretlandi vill oft verða töluvert misræmi á milli hlutfalls atkvæða og þingsæta. Til dæmis fékk Skoski þjóðarflokkurinn þrjú prósent atkvæða árið 2017 en nærri þrefalt fleiri þingsæti en Frjálslyndir demókratar með þeirra sjö prósent atkvæða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×