Erlent

Alþýðulýðveldið Kína fagnar sjötugsafmæli á morgun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Xi Jinping, forseti Kína, var fremstur í flokki þeirra sem söfnuðust saman við píslarvottaminnisvarðann í höfuðborginni Peking í dag. Mikill fjöldi safnaðist þar saman og var blómsveigur lagður að minnisvarðanum til þess að minnast þeirra sem féllu í byltingu kommúnista.

En á morgun fagna Kínverjar þeim sjötíu árum sem eru liðin frá því Lýðveldið Kína vék fyrir Alþýðulýðveldinu Kína eftir blóðuga byltingu sem heimti líf fjölmargra. Bæði í borgarastyrjöldinni sjálfri og svo meðal annars í hreinsunum á andófsmönnum. Þá eru ótaldir þeir tugir milljóna sem fórust í hungursneyðum.

Cui Baoxian, níræður íbúi í Peking, minnist byltingarinnar svona í dag: „Á þessum tíma fundum við fyrir bæði andlegum og fjárhagslegum þrýstingi. Þetta var ekki auðvelt. Það var mikið stress.“

Rifin upp úr fátækt

Það er þó ekki þar með sagt að eymdin ein hafi fylgt yfirráðum Kommúnistaflokksins. Árið 1978 tók Deng Xiaoping við völdum og opnaði fyrir bæði milliríkjaviðskipti og takmarkaðan einkarekstur. Þá voru níu af hverjum tíu Kínverjum sárafátækir samkvæmt skilgreiningu Alþjóðabankans. Í dag, eftir ævintýralegan hagvöxt, er einn af hverjum hundrað í þeirri stöðu.

Kínverjar standa nú frammi fyrir ýmsum áskorunum. Meint ill meðferð á uighur-múslimum í Xinjiang-héraði er fordæmd, Kína á í erfiðu tollastríði við Bandaríkin og hávær mótmæli eru enn í Hong Kong.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×