Erlent

Dómsmálaráðherra jós úr skálum reiði sinnar í umræðum um Brexit

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Breska þingið kom saman í fyrsta skipti í dag eftir að hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í gær að ákvörðun Johnson-stjórnarinnar um að fresta þingfundum þann 9. september síðastliðin hafi verið ólögmæt og sú ákvörðun var til umræðu.

Geoffrey Cox dómsmálaráðherra tók skýrt fram að þingfundum yrði ekki frestað á ný í trássi við úrskurð hæstaréttar. Þannig hélt hann glugganum opnum fyrir frekari frestun.

Cox gagnrýndi þingið sjálft harðlega og þá sérstaklega ákvörðun þess að samþykkja ekki tillögu Johnson um að boða til nýrra kosninga.

„Þetta er dautt þing. Það ætti ekki að sitja lengur. Það á engan siðferðislegan rétt á því að sitja á þessum grænu bekkjum,“ sagði ráðherrann og hélt áfram:

„Það gæti samþykkt vantraust [á forsætisráðherra] hvenær sem það vill en þorir því ekki. Þingmenn gætu samþykkt að rjúfa þing en eru of miklir heiglar.“

Gætu beðið um frest en samt ekki

Ríkisstjórnin hefur nú fram til 19. október til þess að fá þingið til að annað hvort samþykkja nýjan útgöngusamning eða heimila samningslausa útgöngu. Enginn samningur liggur fyrir og ljóst er að samningslaus útganga verður ekki samþykkt. Ef ríkisstjórninni tekst þetta ekki er Johnson skyldugur til þess að biðja Evrópusambandið um að fresta útgöngu.

Það vill Johnson alls ekki gera og er sagður leita möguleika til þess að komast hjá frestun. Martin Callanan útgöngumálaráðherra útilokaði ekki í dag að Johnson myndi biðja Evrópusambandið um að einfaldlega neita beiðninni.


Tengdar fréttir

Breska þingið kemur aftur til starfa

Breska þingið kemur aftur til starfa í dag eftir að Hæstiréttur Bretlands komst að þeirri niðurstöðu í gær að þingfrestun Boris Johnson hefði verið ólögmæt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×