Erlent

Blair segir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu vera einu leiðina

Samúel Karl Ólason skrifar
Tony Blair á blaðamannafundi í morgun.
Tony Blair á blaðamannafundi í morgun. Vísir/AP
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu vera einu leiðina til að bæta ástandið þar í landi. Þá dró hann lögmæti úrgöngu Bretlands, án samnings, í efa. Á blaðamannafundi sem Blair hélt nú í morgun sagði hann að aðgerðir ríkisstjórnar Boris Johnson væru hneykslanlegar og óábyrgar.

Johnson ákvað í síðustu viku að fresta þingfundum fram í október en hann hefur lýst því að af Brexit verði þann 31. október, þó það verði án nokkurs samnings við ESB. Til stendur að fresta þingi í næstu viku og á það ekki að koma aftur saman fyrr en 14. október.

Forsætisráðherrann hefur verið sakaður um að reyna að koma í veg fyrir að þingmenn geti veitt ríkisstjórninni aðhald og um að reyna að grafa undan lýðræði Bretlands. Ákvörðun hans hefur valið reiði meðal þingmanna og almennings og hefur henni verið mótmælt víða.

Sjá einnig: „Algjör upplausn í breskum stjórnmálum“



Í ræðu sinni í morgun sagði Blair að Johnson og Íhaldsflokkurinn gætu reynt að leggja gildru fyrir andstöðuna með því að reyna að boða til nýrra kosninga. Hann sagði að stjórnarandstöðuflokkarnir ættu að hafna því og krefjast þess í stað að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla í staðinn.

Gildran fælist í því að Íhaldsflokkurinn myndi græða á miklum óvinsældum Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, samkvæmt Blair.


Tengdar fréttir

Þingmenn skora hverjir á aðra vegna ákvörðunar Johnsons

Mikil óánægja er í Bretlandi með þing­frest­unar­ákvörðun forsætisráðherra. Verkamannaflokkurinn opinn fyrir vantrausti en háttsettur Íhaldsmaður bíður spenntur eftir atkvæðagreiðslu um slíkt. Andstaðan mun reyna að banna samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×