Erlent

Boris Johnson biðlar til þingmanna að valda ekki „tilgangslausri töf“ á útgöngu Breta

Eiður Þór Árnason skrifar
Ákvörðun Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlans, um að fresta þingi í fimm vikur í aðdraganda Brexit hefur sætt mikilli gagnrýni.
Ákvörðun Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlans, um að fresta þingi í fimm vikur í aðdraganda Brexit hefur sætt mikilli gagnrýni. vísir/getty
Boris Johnson segist ekki vilja að boðað verði til þingkosninga og hvatti breska þingmenn til að kjósa ekki með annarri tilgangslausri töf á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kom fram á blaðamannafundi breska forsætisráðherrans fyrir utan Downingstræti 10 á fimmta tímanum í dag.

Nokkrir fyrrverandi ráðherrar Íhaldsflokksins eru sagðir ætla að greiða atkvæði með þingmönnum Verkamannaflokksins og öðrum til að koma í veg fyrir að Johnson geti dregið Bretland úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings 31. október. Þingið ætlar að greiða atkvæði um frumvörp stjórnarandstöðunnar nú í vikunni. Johnson hefur áður lýst því yfir að Bretar yfirgefi sambandið þá hvort sem það verði með eða án samnings.

Sjá einnig: Írska baktryggingin ófrávíkjanleg krafa ESB

Johnson sagði jafnframt að slík aðgerð þingmanna myndi stórskaða möguleika Breta á því að ná nýju samkomulagi við ESB um útgönguna. Með stuðningi þingmanna gæti hann þó náð fram breytingum á núverandi samkomulagi við ESB sem samið var um í stjórnartíð Theresa May. Því samkomulagi hefur verið hafnað þrisvar sinnum af breska þinginu.

Heimildir BBC herma að forsætisráðherrann muni boða til þingkosninga ef þinginu takist að koma í veg fyrir að Bretar fari út án samnings.


Tengdar fréttir

Blair segir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu vera einu leiðina

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu vera eina leiðina til að bæta ástandið þar í landi. Þá dró hann lögmæti úrgöngu Bretlands, án samnings, í efa.

Kosningar gætu blasað við á Bretlandi

Forsætisráðherrann er sagður ræða af alvöru um að boða til kosninga strax í haust verði ríkisstjórnin undir á þingi í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×