Sport

Ekstrabladet: Heimsfrægar stjörnur mæta frá Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/anniethorisdottir
Íslensku CrossFit stjörnurnar Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir munu báðar keppa á Butcher’s Classics CrossFit mótinu í Kaupmannahöfn um helgina og koma þeirra hefur vakið athygli.

Butcher’s Classics mótið er stærsta CrossFit mót Danmerkur en það fer fram í Ballerup Super Arena í útjaðri Kaupmannahafnar.

Það er þó ein stór breyting frá síðustu CrossFit mótum þeirra Anníe og Katrínar þar sem þær hafa verið í keppni við hvora aðra sem og aðrar bestu CrossFit konur heimsins.

Þetta mót í Kaupmannahöfn er liðakeppni og munu þær Anníe Mist og Katrín Tanja keppa þar saman í tveggja manna liði. Þær hafa verið við æfingar á Íslandi undanfarna daga og verða væntanlega erfiðar viðureignar á þessu móti.



Ekstrabladet skrifar meðal annars um kom þessara tveggja heimsfrægu CrossFit stjarna frá Íslandi en þær Anníe Mist og Katrín Tanja hafa báðar unnið heimsleikana tvisvar sinnum.

Blaðamaður Ekstrabladet skrifar að þótt Danir þekki þessar íslensku stelpur kannski lítið þá séu þær heimsfrægar enda með samtals tæplega þrjár milljónir fylgjenda á Instagram.

„Þrátt fyrir að Katrín Tanja Davíðsdóttir sé aðeins 26 ára gömul þá er hún nýbúin að gefa út ævisögu sína og þá hefur íþróttavöruframleiðandinn Reebok borgað Anníe Þórisdóttur í mörg ár fyrir að vera sendiherra fyrirtækisins innan CrossFit íþróttarinnar,“ segir í grein Ekstrabladet.

Í grein kemur fram að þetta verður í fyrsta sinn sem tveir heimsmeistarar taka þátt í þessu árlega móti sem fer nú fram í níunda skiptið.

Þetta verður fyrsta CrossFit mót Anníe Mistar og Katrínar Tönju eftir heimsleikana þar sem Katrín varð fjórða en Anníe tólfta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×