Jón Þór Hauksson stýrir íslenska kvennalandsliðinu í fyrsta sinn í keppnisleik annað kvöld. Ísland tekur þá á móti Ungverjalandi í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2021.
Íslenska liðið hefur æft stíft í aðdraganda leiksins. Í gær voru tvær æfingar og það sama verður uppi á teningnum í dag.
Á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag gantaðist Jón Þór með að hann væri ekki búinn að vera með liðið síðan í júní og ætti nokkrar æfingar inni.
„Ég er að vinna upp. Ég hef ekki þjálfað síðan í júní og á 50 æfingar inni,“ sagði Jón Þór í léttum dúr.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, sagðist lítið kippa sér upp við stífar æfingar enda ýmsu vön frá Þýskalandi þar sem hún leikur.
Jón Þór sagði þó að þjálfarateymi íslenska liðsins reyndi að stýra álaginu enda spiluðu margir leikmenn með sínu félagsliði á sunnudaginn.
„Við höfum reynt að stýra álaginu og þetta var frekar rólegt í gær. Flestir leikmannnanna eru vanir að vera í fríi tveimur dögum eftir leik. Við reynum að passa upp á þær,“ sagði Skagamaðurinn.
Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:00.
Æft tvisvar á dag í aðdraganda Ungverjaleiksins: „Ég er að vinna upp“

Tengdar fréttir

Sara Björk: Ungu stelpurnar hafa komið inn með sjálfstraust sem þær þurfa að gera
Landsliðsfyrirliðinn er spenntur fyrir ungu leikmönnunum í íslenska liðinu.