

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar skilur ekki afhverju stjórnvöld séu ekki búin að tryggja innanlandsflug með niðurgreiðslu flugfargjalda sem fyrirheit voru um fyrir síðustu alþingiskosningar.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur miklar áhyggjur af samdrætti í innanlandsflugi og vill ekki að Ísland breytist í borgríki. Það sem af er ári hefur farþegum um aðra flugvelli en í Keflavík fækkað um 12 prósent.
"Miðað við þá vinnu sem hefur verið unnin að þá hefur verið bent á að einhverjar 700-800 milljónir myndu geta snúið við, talsvert þessari þróun, og veita fólki þennan möguleika á að fá niðurgreiddan flugmiða upp að tilteknum fjölda flugferða og þá fjármuni höfum við í dag," segir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Flugfarþegar í innanlandskerfinu fyrstu sjö mánuði ársins hafa ekki verið færri síðan árið 2002. Samgönguráðherra segir þetta áhyggjuefni og að spýta þurfi í lófana. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir verðið komið yfir sársaukamörk.