Fótbolti

Glódís og stöllur hennar juku forskotið á toppnum | Góður sigur Kristianstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís lék allan leikinn í vörn Rosengård.
Glódís lék allan leikinn í vörn Rosengård. vísir/getty
Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Rosengård sem vann 3-0 sigur á Limhamm Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Rosengård er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar en liðið hefur unnið níu af fyrstu 13 leikjum sínum á tímabilinu.

Andrea Thorisson lék síðustu 13 mínúturnar fyrir Limhamm Bunkeflo sem er í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar.

Íslendingaliðið Kristianstad bar sigurorð af Vaxjo, 3-1. Sif Atladóttir lék allan leikinn í vörn Kristianstad en Svava Rós Guðmundsdóttir var á varamannabekknum. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem er í 6. sæti.

Það gengur hvorki né rekur hjá Djurgården sem tapaði fyrir Eskilstuna United, 4-2. Djurgården hefur tapað fimm leikjum í röð og er í 10. sæti deildarinnar. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn fyrir Djurgården en Guðrún Arnardóttir var á bekknum.

Anna Rakel Pétursdóttir kom inn á sem varamaður á 35. mínútu þegar Linköping laut í lægra haldi fyrir Kungsbacka, 2-1. Þetta var fyrsti sigur Kungsbacka í deildinni. Linköpings er í 5. sæti.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn fyrir Vålerenga sem gerði 1-1 jafntefli við Stabæk í norsku úrvalsdeildinni.

Vålerenga, sem hefur aðeins fengið tvö stig af níu mögulegum í síðustu þremur leikjum, er í 6. sæti deildarinnar.

Kjartan Henry Finnbogason var í byrjunarliði Velje sem laut í lægra haldi fyrir Frederica, 0-1, í dönsku B-deildinni. Velje er í 7. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×