Enski boltinn

Gamall Eyjamaður á ferðinni í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James McCarthy var ekki alltof ánægður með George Baldock í leik Crystal Palace og Sheffield United um helgina.
James McCarthy var ekki alltof ánægður með George Baldock í leik Crystal Palace og Sheffield United um helgina. AP/Tim Goode
Nýliðar Sheffield United eru taplausir eftir tvær fyrstu umferðir ensku úrvalsdeildarinnar og unnu 1-0 sigur á Crystal Palace í fyrsta heimaleik sínum um helgina.

Það kannast kannski margir Eyjamenn við eitt nafnið í byrjunarliði Sheffield United en það er hinn 26 ára gamli hægri bakvörður George Baldock.

George Baldock var leikmaður Milton Keynes Dons þegar Eyjamenn fengu hann að láni sumarið 2012. Félagið bjóst við miklu að honum og leyfði honum að spila sig í gang í Vestmannaeyjum þetta sumar.

Hann var þá nítján ára gamall og hafði aðeins spilað þrjá leiki með Milton Keynes Dons áður en hann fór á láni til Northampton Town og Tamworth.

George Baldock spilaði 16 leiki með ÍBV í Pepsi deildinni sumarið 2012 og hjálpaði liðinu að ná þriðja sætinu. ÍBV vann 8 af leikjunum sem hann spilaði.

Hann skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu auk þess að koma að undirbúningi tveggja marka til viðbótar.

Baldock lét finna vel fyrir sér þrátt fyrir ungan aldur og fékk alls átta gul spjöld í deildinni. Hann fór því tvisvar í bann um sumarið en enginn leikmaður í Pepsi deildinni var fljótari að fá sjö gul spjöld þetta sumarið.

George Baldock fór oft á láni á næstu árum en Milton Keynes Dons seldi hann að lokum til Sheffield United í júní 2017.

Baldock er nú á sínu þriðja tímabili með Sheffield United og er búinn að byrja tvo fyrstu leiki liðsins í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×