Íslenski boltinn

Bryndís Lára: Ég er búin að vera hrein hörmung í allt sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bryndís Lára í leik með Akureyrarliðinu í sumra.
Bryndís Lára í leik með Akureyrarliðinu í sumra. vísir/bára
„Við erum bara hrikalega sáttar. Svolítið skrýtið að vera fagna jafntefli, það er eitthvað sem maður vill ekki gera en miðað við standið á hópnum hjá okkur og genginu undanfarið erum við hrikalega ánægðar,“ sagði markvörðurinn og fyrirliðinn Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir eftir markalaust jafntefli Breiðabliks og Þórs/KA í Pepsi Max deild kvenna í kvöld.

 

Bryndís Lára átti hreint út sagt frábæran leik í marki gestanna og sá til þess að Þór/KA landaði einu stigi á einum erfiðasta útivelli landsins. Aðspurð hvort þetta væri hennar besti leikur í sumar þá taldi Bryndís það nokkuð augljóst.

„Já klárlega, ég er búin að vera hrein hörmung í allt sumar þannig það var mjög gaman að standa sig loksins vel. Ég var reyndar mjög tæp strax á fyrstu mínútu þegar ég missti boltann eftir fyrirgjöf en sem betur fer héldum við hreinu.“

 

Það er langt í næsta leik hjá Þór/KA og stefnir leikmannahópurinn því á að slaka vel á um Verslunarmannahelgina.

„Við erum nokkrar að fara til Eyja að slaka vel á. Svo eru sumir sem fara erlendis svo það er notaleg helgi framundan,“ sagði Bryndís sátt að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×