Erlent

Hagvaxtarspár lækka vegna óvissu um Brexit

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Boris Johnson er ákveðinn í útgöngu 31. október.
Boris Johnson er ákveðinn í útgöngu 31. október. Fréttablaðið/AFP
Englandsbanki hefur lækkað hagvaxtarspár sínar vegna vaxandi óvissu um Brexit. Gerir bankinn nú ráð fyrir 1,3 prósenta hagvexti í ár í stað 1,5 prósenta vaxtar og að vöxturinn á næsta ári verði 1,3 prósent í stað 1,6 prósenta.

Bankinn ákvað í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum, eða í 0,75 prósentum. Spár byggja enn á því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu með samningi en jafnframt er varað við því að hagvöxtur gæti orðið miklu minni verði útgangan án samnings.

Þá heldur gengi pundsins áfram að falla og hafði í gær ekki verið lægra gagnvart Bandaríkjadal síðan í janúar 2017.

Boris Johnson forsætisráðherra er staðráðinn í því að Bretland yfirgefi ESB þann 31. október næstkomandi, með eða án samnings. Hann hefur sagt að hann muni ekki setjast að samningaborðinu nema ESB gefi eftir í deilunni um landamæri Írlands og Norður-Írlands. – sar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×