Erlent

Ógnaði þingmanni sem var mótfallinn Brexit

Sylvía Hall skrifar
Heidi Allen sagði sig úr Íhaldsflokknum í febrúar vegna Brexit.
Heidi Allen sagði sig úr Íhaldsflokknum í febrúar vegna Brexit. Vísir/Getty
Hinn 59 ára gamli Ian Couch var dæmdur í 24 vikna fangelsi fyrir hótanir í garð þingmannsins Heidi Allen á Internetinu. Dómari í málinu sagði framkomu Couch í garð Allen vera „ógnvekjandi“ og augljóslega hótanir.

Ástæða hótananna var sú að Allen var mótfallin Brexit en Couch, sem er fyrrum landgönguliði, er hlynntur útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Maðurinn birti meðal annars greinargóðar loftmyndir af heimili þingmannsins og sagði í færslum á samfélagsmiðlum að honum væri skapi næst að gera heimilisfang hennar opinbert.

Degi eftir að hafa birt myndir af heimili hennar sendi hann Allen tölvupóst þar sem hann sagði marga hafa beðið sig um myndir af heimili hennar en hann hafi neitað að senda þær þar sem hann dáðist af störfum hennar í þágu kjördæmisins.

Í vitnisburði Allen kom fram að hún hafi upplifað mikla hræðslu vegna skilaboða Couch, bæði heima hjá sér og í hverfi sínu, og hafi átt erfitt með svefn. Hún hafi komið upp öryggisbúnaði á heimili sínu og hætt að fara út að hlaupa þar sem hún hafi upplifað sig í hættu.

Dómarinn sagði alveg ljóst að framganga Couch hafi verið til þess fallin að vekja upp ótta og með því að birta myndir af heimili hennar hafi hann sett hana í hættu. Hann hafi gefið það í skyn að fólkið sem hefði áhuga á að vita heimilisfang hennar ætti það til að „missa stjórn á sér“.

Þá sagði dómarinn störf Couch í þágu lands og þjóðar vera vitnisburð um mikið hugrekki en í kjölfarið hafi hann þurft að glíma við geðræn vandamál. Það væri árás á lýðræðið að ógna þingmönnum með þessum hætti.

„Ef fólk er of hrætt, of ógnað, til þess að starfa sem þingmenn, þá er grafið undan lífsgæðum hins almenna borgara,“ sagði dómarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×