Erlent

Upptökur af því þegar Íranir hertóku olíuflutningaskip birtar

Kjartan Kjartansson skrifar
Skjáskot sem íranski byltingarvörðurinn birti af því þegar liðsmenn hans hertóku flutningaskipið á föstudag.
Skjáskot sem íranski byltingarvörðurinn birti af því þegar liðsmenn hans hertóku flutningaskipið á föstudag. Vísir/EPA
Íranski byltingarvörðurinn birti í gær myndband sem sýnir grímuklædda og vopnaða hermenn síga um borð í olíuflutningaskip sem siglir undir bresku flaggi úr þyrlu. Hljóðupptökur sem einnig voru birtar sýna hvernig stjórnendur breskrar freigátu vöruðu Írani við því að hafa afskipti af flutningaskipinu.

Olíuflutningaskipið og áhöfn þess var færð til hafnar í Íran á föstudag. Írönsk yfirvöld fullyrða að skipið hafi brotið alþjóðalög með því að hafa rekist á fiskiskip á Hormússundi og ekki sinnt köllum þess. Bresk stjórnvöld fullyrða aftur á móti að flutningaskipið, sem er í eigu sænskrar útgerðar, hafi verið innan lögsögu Óman þegar íranski byltingarvörðurinn hertók það.

Á hljóðupptöku sem breskt öryggisfyrirtæki komst yfir og birti heyrast stjórnendur íransks skips skipa flutningaskipinu Stena Impero að breyta um stefnu. „Ef þið hlýðið verðið þið öruggir,“ segja Íranirnir, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Stjórnendur freigátu breska sjóhersins HMS Montrose skerast þá í leikinn og segja Stena Impero að ekki megi hindra för þess á alþjóðlegri siglingarleið. Þá biðja þeir írönsku byltingarverðina um að staðfesta að þeir ætli ekki að brjóta alþjóðalög með því að reyna að ganga um borð í flutningaskipið. Freigátunni tókst þó ekki að koma í veg fyrir að flutningaskipið væri hertekið.

Vaxandi spenna hefur færst í samskipti Bretlands og Írans undanfarið. Írönsk stjórnvöld hafa reynt að þrýsta á Breta og aðrar Evrópuþjóðir að halda lífi í kjarnorkusamningnum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði skilið við í fyrra.

Íranir hafa verið sakaðir um að ráðast á skip á Hormússundi, einni fjölförnustu siglingarleið heims en þeir hafa neitað öllum slíkum ásökunum. Þeir reiddust Bretum þegar för íransks flutningaskips var stöðvuð við Gíbraltar fyrr í þessum mánuði. Talið var að skipið flytti olíu til Sýrlands í trássi við þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins. Íranir hótuðu þá að hertaka breskt skip á móti.


Tengdar fréttir

Breska skipið komið til hafnar í Íran

Utanríkisráðherra Bretlands segir að afleiðingarnir verði alvarlegar skili írönsk stjórnvöld ekki olíuskipi sem þeir hertóku í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×