Erlent

Johnson segir einhug innan nýju ríkisstjórnarinnar um Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson (f.m.) með ráðherraliði sínu á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Johnson (f.m.) með ráðherraliði sínu á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. AP/Aaron Chown
Ríkisstjórn Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og nýkjörins leiðtoga Íhaldsflokksins, kom saman til síns fyrsta fundar í morgun. Þar fullyrti Johnson að ráðherraliðið væri einhuga um að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu 31. október.

„Við eigum þýðingarmikið verkefni fyrir höndum. Á vendipunkti í sögu landsins eru við nú staðráðin, öll saman, í að ganga úr Evrópusambandinu 31. október eða jafnvel fyrr, engin spurning,“ sagði Johnson við upphaf fundarins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hét hann því að ná samningum við Evrópusambandið áður en fresturinn rennur út, annars dragi hann Bretland úr sambandinu án útgöngusamnings. Varað hefur verið við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum af útgöngu án samnings.

Johnson gerði stórtækar breytingar á ríkisstjórninni og rak nærri því alla þá ráðherra sem sátu í stjórn Theresu May, forvera hans í embætti. Sautján þeirra voru annað hvort reknir eða þeir sögðu af sér vegna andstöðu þeirra við útgöngu án samnings.

Priti Patel, nýr innanríkisráðherra Bretlands.Vísir/EPA
Nýja ráðherraliðið er nær eingöngu skipað harðlínufólki hvað varðar Brexit. Auk þess valdi Johnson Dominic Cummings, kosningastjóra opinberrar herferðar fyrir útgöngu Bretlands í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016, til að vera aðalráðgjafi sinn í Downing-stræti.

Sum þeirra sem Johnson veitti embætti í ríkisstjórninni eru umdeildari en önnur. Þannig skipaði hann Priti Patel innanríkisráðherra sinn. Patel var ráðherra þróunaraðstoðar í ríkisstjórn May en var rekin árið 2017 þegar í ljós kom að hún hafði farið til leynilegra viðræðna í Ísrael án þess að láta utanríkisráðuneytið vita.

Hún þykir vera yst á hægri væng Íhaldsflokksins og hefur talað fyrir því að markmið um þróunaraðstoð verði felld niður og að dauðarefsing verði tekin aftur upp á Bretlandi.


Tengdar fréttir

Boris skipar nýja ríkisstjórn

Nýr forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, tók opinberlega við embætti í dag. Boris sem bar sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins í gær hóf umsvifalaust að skipa samflokksmenn sína í hin ýmsu ráðuneyti bresku ríkisstjórnarinnar. BBC greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×