Fótbolti

Rúnar Páll: Hrikalega stoltur af liðinu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann Laxdal í baráttunni í kvöld.
Jóhann Laxdal í baráttunni í kvöld. vísir/getty
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var stoltur af lærisveinum sínum í kvöld eftir 4-0 tap gegn spænska stórliðinu Espanyol.

Leikurinn var fyrri leikur liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en liðin mætast á Samsung-vellinum í Garðabæ í næstu viku.

Staðan var markalaus í hálfleik en í síðari hálfleik sýndu Spánverjarnir hvers þeir væru megnugir og skoruðu fjögur falleg mörk. Rúnar var hins vegar stoltur í leikslok.

„Ég er hrikalega stoltur af liðinu. Það lögðu sig allir þvílíkt fram við frábærar aðstæður og að spila á stóra sviðinu. Þeir stóðu sig hrikalega vel,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Vísi í leikslok.

„Það er á fimmtán mínútna kafla sem þeir skora þessi mörk og þar sýna þeir bara gæði sín. Þar áttum við ekki breik í þá og við vorum ekkert að gera neitt vitlaust. Þeir sýndu bara gæðin sín í mörkunum.“

„Mér fannst við spila stórkostlegan fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var frábær. Við spiluðum hálfgerða handboltavörn á þá og það var frábærlega gert. Við ætluðum að fara þannig inn í síðari hálfleikinn líka en allt kom fyrir ekki.“

Staðan var markalaus í hálfleik eins og fyrr segir og varnarleikur Stjörnunnar var til mikillar fyrirmyndar í fyrri hálfleiknum.

„Fyrri hálfleikurinn var alveg frábær og svo fengum við tvö upphlaup sem við hefðum getað nýtt aðeins betur. Við hefðum svo getað verið örlítið rólegri á boltann þegar við unnum hann en við lærum af þessu. Þetta er geggjuð reynsla.“

Hver voru skilaboð Rúnars fyrir leikinn gegn eins frábæru liði og Espanyol?

„Hafa trú á verkefninu. Það er það sem skiptir máli. Það er allt hægt í þessum fótbolta. Við höfðum trú á þessu en svo kemur þessi gæðamunur á einstaklingum. Þeir fóru að dæla inn fyrirgjöfum sem við vorum í erfiðleikum með en heilt yfir góð frammistaða þrátt fyrir tap,“ sagði Rúnar Páll.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×