Íranskir herbátar reyndu í nótt að hamla för breskra olíuflutningaskipa sem voru á leið í gegnum Hormuz sund.
Talið er að bátarnir tilheyri Byltingarverðinum svokallaða, úrvalssveitum klerkastjórnarinnar í Teheran.
Engum skotum var hleypt af en bresk freigáta kom olíuskipunum til bjargar og stuggaði írönsku bátunum á brott.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Breta segir að þar á bæ séu menn uggandi yfir þeirri spennu sem nú sé á svæðinu og eru Íranir hvattir til að draga úr þeirri spennu með því að láta af hátterni sem þessu, en alþjóðalög tryggja för skipa um Hormuz sund.

