Sport

Guðlaug Edda stóð sig vel

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir. Mynd/Fésbókarsíða Eddu
Þríþraut­ar­kon­an Guðlaug Edda Hann­es­dótt­ir keppti um helgina á móti sem fram fór í Montreal í Kanada og er hluti af heimsbikarmótaröðinni sem er sterkasta mótaröð heims í þríþraut.

Keppt var í sprettþraut en þá eru syntir 750 metrar, hjólaðir 20 kíló­metrar og að lokum fimm kílómetrar hlaupnir. Alls kepptu 35 keppendur en Guðlaug Edda hóf keppni aftast þar sem hún var með lökustu stöðu á heimslistanum af þátttakendum mótsins.  

Sundið gekk vel hjá Guðlaugu Eddu en hún synti á tím­an­um 9:26 mín­út­ur og var hún í sjöunda sæti þegar kom að hjólreiðunum. Þar gekk ekki eins vel hjá henni og var hún aftarlega í hjólreiðahlutanum.

Guðlaug Edda náði vopnum sínum á nýjan leik í hlaupinu sem hún hóf af miklum krafti og náði að sama skapi góðum endaspretti. Skilaði það henni í 26. sæti.

Langtímamarkmið hennar er að verða fyrsta íslenska konan til þess að taka þátt í Ólymp­íu­leik­um í þríþraut þegar keppt verður í Tókýó næsta sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×