Ný reglugerð um útlendinga er til bóta fyrir flóttafólk en kemur þó ekki í veg fyrir að börnum sé vísað til Grikklands. Þetta segir Atli Viðar Thorstensen, sviðstjóri á hjálpar og mannúðarsviði Rauða krossins. Setja þurfi fjármuni í að flýta málsmeðferð allra flóttamanna sem hingað koma og að málsmeðferðartími hér á landi sé alltof langur.
Dómsmálaráðherra breytti í gær reglugerð um útlendinga til aðstoðar tveimur afgönskum fjölskyldum sem vísa átti úr landi. Breytingarnar fólu í sér að Útlendingastofnun sé nú heimilt á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum. Fyrir breytingar voru mánuðirnir 12.
Sviðstjóri á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins, telur reglugerðina til bóta.
„Það er auðvitað betra að þessi tími sé styttur úr tólf mánuðum í tíu. Þá má spyrja hvers vegna tíu? Ég held að það sé reyndar kominn tími til, eins og ráðherra hefur bent á, að endurskoða aðeins framkvæmdina. Þá hlýtur þessi tímarammi að koma til skoðunar líka,“ segir hann.
Brottvísanirnar vöktu hörð viðbrögð og efnt var til fjölmennra mótmæla á fimmtudag. Eins og komið hefur fram hafa börnin sýnt merki áfallastreituröskunar vegna ótta og hræðslu um framtíð sína. Lögmaður fjölskyldnanna skilaði í gær inn þriðju endurupptöku beiðninni í máli annarrar fjölskyldunnar og með nýju reglugerðinni eiga báðar fjölskyldurnar rétt á efnismeðferð sinna umsókna.
Atli segir að kannað verði eftir helgi hvort fleiri börn eða fjölskyldur á flótta falli undir þessa nýju reglugerð.
„Það er kannski rétt að árétta að þessi reglugerðarbreyting ein og sér kemur ekki í veg fyrir að börnum verði vísað til Grikklands sem að hafa fengið vernd. Það er eitthvað sem að við teljum að mætti skoða,“ segir hann.
Svíþjóð
Ísland