Erlent

Samþykktu lögleiðingu samkynja hjónabanda á Norður-Írlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Andstæðingur jafnréttis til hjónabands mótmælir göngu stuðningsmenn hjónabanda samkynhneigðra í Belfast árið 2015.
Andstæðingur jafnréttis til hjónabands mótmælir göngu stuðningsmenn hjónabanda samkynhneigðra í Belfast árið 2015. Vísir/Getty
Breskir þingmenn samþykktu í dag frumvarp sem knýði heimastjórnina á Norður-Írlandi til að lögleiða samkynja hjónabönd takist ekki að mynda nýja stjórn þar fyrir veturinn. Norður-Írland er eini hluti Bretlands þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru ekki heimil.

Pólitískt þrátefli hefur ríkt á Norður-Írlandi undanfarin tvö ár. Ekki hefur tekist að mynda heimastjórn þar eftir að sú síðasta sprakk árið 2017. Frumvarpið sem mikill meirihluti þingmanna á breska þinginu samþykkti í dag felur í sér að bresk stjórnvöld skikki Norður-Íra til að lögleiða hjónaböndin verði ný heimastjórn ekki mynduð fyrir 21. október.

Írar lögleiddu hjónabönd samkynhneigðra árið 2015 og liðkuðu til lög um þungunarrof í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra. Á Norður-Írlandi eru hjónabönd samkynhneigðra aftur á móti bönnuð og þungurrof er aðeins heimilt þegar líf móður er í hættu, að því er segir í frétt Reuters.

Stuðningur við lögleiðingu samkynja hjónabanda hefur þó farið vaxandi á Norður-Írlandi. Fjölmenn kröfuganga til stuðnings þeirra var farin í Belfast fyrr á þessu ári.

Andstaða Lýðræðislega sambandssinnaflokksins (DUP) við hjónabönd samkynhneigðra er á meðal þess sem hefur komið í veg fyrir myndun nýrrar heimastjórnar. Flokkar sambands- og þjóðernissinna verða lögum samkvæmt að mynda saman heimastjórn. Sinn Fein, flokkur þjóðernissinna, hefur sett afstöðu sambandssinnanna fyrir sig í stjórnarmyndunarviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×