Menning

Líf og dauði eru alltaf að vega salt

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Þannig að ég mæti dauðanum og tekst á við hann sem yrkisefni, segir Valdimar.
Þannig að ég mæti dauðanum og tekst á við hann sem yrkisefni, segir Valdimar. Fréttablaðið/Anton Brink
Heildarsafn ljóða Valdimars Tómassonar er komið út. Titillinn er Ljóð 2007-2018 og þar er að finna bækurnar Enn sefur vatnið (2007), Sonnettu­geigur (2013), Dvalið við dauðalindir (2017) og Vetrarland (2018). Guðmundur Andri Thorsson skrifar inngang um skáldið og skáldskap þess.

Valdimar tileinkar Þorsteini heitnum frá Hamri bókina. „Þar kemur margt til, bæði löng vinátta og það að hann var mér oft ráðhollur í yfirlestri texta. Ég hef líka alltaf haft miklar mætur á hans skáldskap,“ segir Valdimar.

Spurður hvenær hann hafi byrjað að yrkja segir hann: „Í kennslustund í barnaskóla vorum við bekkjarfélagarnir látnir setja eitthvað saman. Ég setti saman rétt kveðna ferskeytlu án þess að þekkja bragreglur. Ég ólst upp í Mýrdalnum en kom suður á unglingsárum og komst í nánd við bækur og fornbókasölur og fór að lesa kveðskap í miklum magni. Þá orti ég fyrst og fremst háttbundið í mínar kompur. Svo var það á nítjánda ári sem ég setti saman mitt fyrsta fullburða ljóð.“

Hryðjuverkamenn ljóðsins

Spurður um áhrifavalda segir hann:

„Þeir eru eflaust margir en ég verð að nefna Snorra Hjartarson, Þorstein frá Hamri og Hannes Pétursson. Ég myndi halda að keimurinn væri nokkuð í þá áttina. Fyrstu skáldin mín voru Davíð Stefánsson, Stefán frá Hvítadal, Tómas Guðmundsson og Steinn Steinarr. Fram að átján ára aldri las ég ekkert nema háttbundinn kveðskap. Svo komst ég yfir fyrstu bók Jóns Óskars, Skrifað í vindinn, og þar eru ljóðin bæði háttbundin og óhefðbundin og síðan eignaðist ég bók hans, Nóttin á herðum okkar, og fór að gægjast inn í kima hryðjuverkamanna ljóðsins, eins og sveitamennirnir kölluðu þá, og sá að þar var margur góður biti. Þá fór ég koll af kolli að elta þessi kver og draga að mér. Þessi saklausi sveitadrengur spilltist frá ferskeyttum hætti og Jónasi yfir í að ganga módernisma og byltingaljóðskáldum á hönd.“

 

Návist dauðans

Valdimar, sem er fæddur árið 1971, er ekki heilsuhraustur.

„Ég var tvískorinn við hjartagalla og glími við flogaveiki,“ segir hann. Það er þunglyndislegur blær yfir mörgum ljóða hans og þar kemur dauðinn oft við sögu. Hann segir þunglyndisblæinn ekki til kominn vegna veikinda sinna en návist dauðans sé sér hugleikin.

„Dauðinn er áberandi umfjöllunarefni hjá mér, kannski vegna teprulegrar nálgunar samtíðarinnar að honum. Fólk flýr hann og forðast eins og ellina. Þessir hlutir eru faldir á bak við veggi og voru ekki umtalsefni þegar ég var að alast upp. Líf og dauði eru alltaf að vega salt. Þannig að ég mæti dauðanum og tekst á við hann sem yrkisefni.

Það er vissulega þunglyndislegur blær yfir ljóðum mínum. Ætli það stafi ekki af því að í uppvextinum mætti ég ekki gleðilegri heimsmynd því ég ólst upp í átökum kjarnorkuvelda. Í ljóðunum er ég að skila þeirri mynd sem var raunveruleiki minnar kynslóðar fremur en að ég sé þunglyndur alla daga.“

 

Skjóðan stundum þung

Valdimar er ástríðufullur ljóðaunnandi og safnar ljóðabókum, frumútgáfum og árituðum bókum. „Ég veit ekki hversu margar ég á, ég veit bara að ég á mikið,“ segir hann. Á ferðum sínum um bæinn ber hann hliðartösku og þar er alltaf að finna ljóðabækur.

„Skjóðan er stundum þung og þar er ég alltaf með góðar bækur og les á ferðum mínum. Ljóðalestur hefur verið ástríða mín og olli því að ég hafði á sínum tíma mikla viðveru hjá bóksölum. Mér finnst líka gaman að eiga hvert og eitt verk höfunda fremur en heildarsafn verka þeirra. Þannig finnst mér ég betur gera mér grein fyrir þróun og samhengi höfundarferilsins heldur en þegar ég er með stórt heildarsafn.“

Valdimar er örugglega ekki hættur að yrkja, en hann segist yrkja í skorpum. „Stundum kemur ekkert árum saman og svo koma loturnar en það tekur tíma að vinna verkið, pússa og breyta, og það er oft lengsta ferlið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×