Menning

Dansað við Listasafn Samúels í Selárdal

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Danshópurinn Core Dance frá Bandaríkjunum  flytur gjörninginn.
Danshópurinn Core Dance frá Bandaríkjunum flytur gjörninginn.
Listasafn Samúels í Selárdal í Arnarfirði mun taka þátt í heimsviðburðinum Global Water Dances á laugardaginn 15. júní klukkan 15.

Um er að ræða dansgjörning, einn af 170 sem fara fram samtímis á jafn mörgum stöðum í heiminum og miða að því að vekja fólk til vitundar um hamfarahlýnun af mannavöldum. Þeir eiga að varpa ljósi á vatnsbúskap hvers svæðis fyrir sig og þau vandamál sem uppi eru varðandi vatn og vatnsskort. Hér á landi má til dæmis gera ráð fyrir að jöklarnir hverfi innan 100-200 ára verði ekkert að gert.

Danshópurinn Core Dance frá Bandaríkjunum mun flytja dansgjörninginn í Selárdal. Hópurinn er nútímadansflokkur sem hefur unnið til verðlauna og hefur aðalbækistöðvar sínar í Atlanta í Georgíufylki og í Houston í Texas. Listrænn stjórnandi Core Dance er Sue Schroeder.

Viðburðurinn verður í streymi á vefnum globalwaterdances.org. Hann markar upphaf sumardagskrár í Listasafni Samúels undir heitinu Samba­sumar. Frítt er inn á viðburðinn en tekið við frjálsum framlögum vegna uppbyggingar safnsins á reikning 512-26-4404, kt. 440398-2949.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×