Fótbolti

Fyrst til að skora á fimm heimsmeistaramótum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marta skorar markið sögulega.
Marta skorar markið sögulega. vísir/getty
Hin brasilíska Marta er sú eina sem hefur skorað á fimm heimsmeistaramótum, hvort sem um er að ræða HM kvenna eða karla.

Marta skoraði úr vítaspyrnu þegar Brasilía tapaði fyrir Ástralíu, 3-2, í C-riðli HM í Frakklandi í gær.

Marta skoraði þrjú mörk á HM 2003, sjö mörk á HM 2007, fjögur mörk á HM 2011, eitt mark á HM 2015 og er komin með eitt mark á HM 2019.

Hún hefur alls skorað 16 mörk í 18 leikjum á HM og er markahæst í sögu heimsmeistaramóts kvenna. Birgit Prinz frá Þýskalandi og Abby Wambach frá Bandaríkjunum skoruðu báðar 14 mörk á HM á sínum tíma.

Marta, sem er 33 ára, hefur skorað 111 mörk í 145 landsleikjum. Hún hefur sex sinnum verið valin besti leikmaður heims.

Tapið í gær var það fyrsta hjá Brasilíu í riðlakeppni HM síðan 1995. Brassar eru með þrjú stig á toppi C-riðils. Þeir mæta Ítölum í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×