Krísur eru mikilvægar Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar 1. júní 2019 12:30 „Ef andinn er ekki í efninu þá er þetta einskis virði. Þá erum við bara að gera tækniæfingar. Margir geta gert hlutina vel en skortir að geta beitt tilfinningu og innsæi,“ segir Goddur. FBL/Ernir Eyjólfsson Guðmundur Oddur Magnússon, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, alltaf kallaður Goddur, er með vinnustofu sína í húsi við Seljaveg í Reykjavík sem er verið að rífa. Allt í kring eru kranar og vinnuvélar að rífa niður húsveggi. Rétt við innganginn er risavaxið gat í gegnum alla bygginguna og blaðamaður þræðir sig í gegnum vinnusvæðið og veltir því fyrir sér hvort það hefði verið skynsamlegt að vera með hjálm. Eða hvort það er skynsamlegt að vera á svæðinu yfirhöfuð. En Goddur er sallarólegur. „Það á ekki að rífa niður þennan hluta hússins, fyrr en í byrjun júlí, ég treysti á að því seinki eitthvað eins og öllum framkvæmdum á Íslandi,“ segir hann. Hundurinn hans Pippa er félagi hans þennan daginn á litríkri vinnustofunni sem er hlaðin bókum, prentverki og plakötum. Goddur fékk fyrir ári úthlutaðan stóran rannsóknarstyrk frá Rannís, til tveggja ára, vegna verkefnisins „Sjónarfur í samhengi: notkun myndmáls í prentsögu Íslands frá 1844-1944“ og hann hefur ráðið fólk í rannsóknarvinnu. Síðar í sumar flytur hann vinnustofu sína í glæsilegt húsnæði í Gufunesi.Landnemi í Gufunesi „Ég verð landnemi í Gufunesi og flyt í húsnæði með sjö metra lofthæð. Ég hlakka til því þetta verður magnað samfélag að starfa í. Við þurfum að fara héðan í júlíbyrjun,“ segir Goddur og segist ekki munu sakna þess að starfa í miðbænum.„Lífræn sköpunarstarfsemi í miðbænum dó fyrir nokkrum árum. Listamenn leita að húsnæði þar sem eru ódýr pláss en þegar túrisminn hélt innreið sína voru allar fasteignir keyptar upp í miðbænum af fasteignafélögum og þeim breytt í hótelíbúðir og fleira. Skapandi fólk flykktist þá út á Granda og í austurborgina en nú er allt orðið of dýrt þar líka,“ segir hann og segir að það líti út fyrir að Reykjavíkurborg munu styðja listsamfélagið í Gufunesi. „Borgin verður þarna með húsnæði með vinnustofum og styður þannig við samfélagið, þarna verður líka ylströnd og stöndug kvikmyndafyrirtæki, til dæmis RVK Studios hans Baltasars. Það er margt komið í deigluna nú þegar vegna þessa nýja samfélags. Við ætlum til dæmis að búa til aðstöðu fyrir 35 hönnunarnema sem koma frá heitasta hönnunarskóla Hollands (KABK) hingað til lands. Þeir fá aðstöðu í Gufunesi í nokkra daga og í LungA-skólanum á Seyðisfirði,“ segir Goddur frá. LungA-skólinn er tilraunakenndur, alþjóðlegur listaskóli sem var stofnaður árið 2013 og tekur við nemendum víðsvegar að úr heiminum og á öllum aldri. Þó að Goddur kenni ekki lengur við Listaháskóla Íslands hefur hann verið viðloðandi starf LungA-skólans.Goddur og Pippa á vinnustofunni á Seljavegi.FBL/Ernir EyjólfssonKennarar séu vinir nemenda „LungA-skólinn er svo mikil fyrirmyndarstofnun að mínum smekk. Hann er ekki miðstýrður og þar er ekki áhugi á vandamálum fólks heldur eingöngu styrkleikum. Fólk fer í skólann af alls kyns ástæðum. Sem dæmi kom þarna kona sem var starfandi læknir en í strandi með líf sitt. Hún vaknaði upp við það einn daginn að hún hafði orðið læknir af því aðrir vildu það meira en hún sjálf. Foreldrar hennar voru læknar en hana langaði alltaf til þess að verða rithöfundur. Hún kom í skólann til þess að öðlast styrk til að breyta lífi sínu.“ Goddur tengir saman nám og sjálfsþekkingu. Bestu aðstæður til þess að laða fram styrkleika fólks séu krísur eða átök og hlutverk kennara í listum geti aldrei verið að leiða slíkt hjá sér. Þeir eigi að aðstoða ungt fólk við að finna sjálft sig og styrkleika sína. Góðir kennarar eru alltaf að læra sjálfir. „Ef ég verð ekki vinur nemenda minna get ég ekki lært með þeim. Það gerist eitthvað sem átti ekki endilega að gerast. Eitthvað smellur. Svoleiðis voru bestu kennarar mínir. Við bíðum stundum eftir þessu, bíðum eftir sprengjunni. Þetta er gullgerðarlistin, að leysa í sundur til að setja saman,“ segir Goddur sem segist þekkja það vel sjálfur að eiga ekki beina línu í námi. „Ég er „droppát“ úr menntaskóla og það tók mig síðan þrjár tilraunir að komast inn í Myndlista- og handíðaskólann. Ég brotnaði ekki heldur tvíefldist og kláraði fornámið á einu ári í stað tveggja og fór svo áfram í grafíkdeild og síðar í nýlistadeild. Síðar fór ég til Vancouver í Bresku-Kólumbíu til að læra grafíska hönnun. Síðan þá hef ég kennt þó að það hafi aldrei verið planið. Gamall bekkjarfélagi minn úr MA hitti Tryggva Gíslason, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, og spurði hann: Hvernig stendur eiginlega á því að Goddur er eini maðurinn í bekknum sem hlaut einhvern akademískan feril? Þá svaraði Tryggvi: Já. það gerði hann reyndar alveg hjálparlaust!“ Alltaf sól og stærri skaflar Goddur er fæddur og uppalinn á Akureyri. Foreldrar hans voru Gyða Gunnarsdóttir, ættuð úr Breiðafjarðareyjum, og Magnús Oddsson Strandamaður. „Ég er alinn upp á Ytri-Brekkunni á Akureyri, í Þórunnarstræti. Foreldrar mínir voru báðir af Vestfjörðum. Það er gott að koma til Akureyrar í smá tíma en fyrir mig og marga jafnaldra mína varð bærinn fljótlega allt of lítill. Ég á eina yngri systur, hún er vefari, býflugna- og æðarbóndi á eyju í Breiðafirði, ullarsérfræðingur og kennir textíl í Myndlistaskólanum í Reykjavík,“ segir Goddur. „Í minningunni var alltaf sól en líka miklu stærri skaflar á veturna en finnast í dag,“ segir hann og brosir. Goddur segir að hann hafi verið heppinn sem ungur strákur. Hann hafi fengið útrás fyrir sköpunarþörfina bæði í skátahreyfingunni og í gagnfræðaskóla. „Ég var með kennara sem tók eftir því að ég gat eitthvað. Hann gaukaði að mér betri blýöntum og pappír og sýndi mér hvernig verkfæri gátu hjálpað til, ég var dreginn áfram með þannig gulrót. Ég var líka partur af skátahreyfingunni þegar ég var yngri, þar gerði ég alls kyns veifur og myndskreytti fundabókina. Skátahreyfingin ól mig svolítið upp í þessu og svo vatt þetta upp á sig í skóla, ég teiknaði útskriftarárgangana í MA, setti upp skólablaðið og gerði plaköt fyrir félagslífið.“ Þegar Goddur hafði fundið sína fjöl í grafískri hönnun fór honum að ganga vel. Skólinn í Vancouver var byggður á póstmódernískri hugmyndafræði þar sem nemendur voru þjálfaðir jafnt í heimspeki listarinnar og tæknilegri verkkunnáttu. Hann naut þess einnig að á þeim tíma sem hann var í námi við MHÍ var mikil gerjun í skólanum.Goddur fékk fyrir ári úthlutaðan stóran rannsóknarstyrk frá Rannís, til tveggja ára, vegna verkefnisins „Sjónarfur í samhengi: notkun myndmáls í prentsögu Íslands frá 1844-1944.“FBL/Ernir EyjólfssonHjarta við hjarta „Á þessum tíma, árin 1975 til 1980, var mikið fjör í nýlistadeildinni, ég fór að kafa í það fjör. Þetta var svo mikið umbreytingatímabil,“ segir Goddur sem kynntist listamönnum sem fengust við nýlist. „Á þessum tíma urði skiptin. Fiftís módernistar voru hugsjónamenn, Evrópa var í rúst og þeir vildu alla þjóðerniskennda fitu út, og meinta upphafna snilligáfu. Þeir vildu finna sjónrænt esperantó og fara aftur í grunninn. En svo kemur önnur kynslóð sem hafði ekki þennan hugsjónaeld og eitthvað nýtt varð til. Á þessum mótunarárum mínum var okkur kennt að aðferðin var aukaatriði þó að hún þyrfti að hrífa fólk með sér, það sem var mikilvægt var að hafa eitthvað að segja. Listamenn voru alltaf spurðir: Í hvaða efni vinnur þú? Eins og það væri aðalatriði, og þá svaraði fólk: Tja, ég er aðallega í bronsi og stundum í leir. Svona myndi fólk aldrei svara í dag. En á þessum tíma þá æfðum við tungutakið og orðaforðann um listina. Við vorum bókstaflega teknir í gegn, það væri svo mikil lygi í heiminum að það skipti svo miklu máli að æfa sig í að segja satt. Ekki stóra sannleikann heldur skipti það máli að vera sannur sjálfum sér. Sannleikur hjartans. Það sem er fagurt er sannleikurinn, þegar hjarta talar við hjarta,“ segir Goddur og tekur gott dæmi um eitthvað sem er ekki eftir bókstafnum en er bæði satt og fagurt. Ljósið heima í Hafrafelli Þetta er saga af fermingardreng sem hét Dóri frá Hafrafelli. Hann átti erfitt með að fara með trúarjátninguna. Hann bara gat ekki lært hana utan að. Við fermingarundirbúninginn fór hann með þessa trúarjátningu: „Í upphafi skapaði guð himinn og jörð, Akureyri og Ísafjörð. Myrkrið í djúpinu og ljós í glugganum hjá mömmu á Hafrafelli.“ Auðvitað fékk drengurinn að fermast. Sagan sýnir að ef andinn er ekki í efninu þá er þetta einskis virði. Þá erum við bara að gera tækniæfingar. Margir geta gert hlutina vel en skortir að geta beitt tilfinningu og innsæi,“ segir Goddur. „Vitsmunagreind hjálpar ekki alltaf til við listsköpun því vitsmunir skapa ekki – hins vegar eru þeir ágætis aftursætisbílstjóri.“„Það er verið að jarðbinda börnin. Jarðbindingin er alvarlegt mál. En svo situr kannski eftir draumórafólkið sem skrifar dúllur og krotar í bækurnar sínar, nær að vernda sig fyrir jarðbindingunni.“ FBL/Ernir EyjólfssonGoddur segir listnám ekki vera að þróast í rétta átt. Háskólavæðing í listgreinum sé ekki til þess fallin að efla sköpun. „Sannleikurinn er sá að við sem unnum að þessari háskólavæðingu og þar er ég ekki saklaus, beygðum okkur um of gagnvart skriffinnskuvaldi. Þessi skriffinnska sem fylgir háskólavæðingu listgreina hófst í Bandaríkjunum og þá var hlegið að þessu í Evrópu, en nú erum við í Evrópu komin á sama stað. Við grínuðumst með það á sínum tíma hvort við ættum að halda yfirlitssýningu þeirra sem yrðu með doktorsgráðu í myndlist. Það gæti nú verið skelfileg sýning,“ segir Goddur og skellir upp úr. „Bara alveg hreint skelfileg. Staðreyndin er sú að listaháskólar, ekki bara hér heldur úti um allt, eru farnir að framleiða Salieri-týpur en Mozart er felldur vegna þess að hann snýr sólarhringnum við,“ segir Goddur og nú er brosið alveg horfið og alvara málsins tekin við. „Ég er ekkert að segja að ég hafi hjálpað mörgum að skrifa ritgerðirnar sínar. En ég hef lesið stórgóðar dyslexískar ritgerðir þar sem er gengið skítugum skónum um heimildir. Það er sama hvaðan gott kemur. Mér finnst leiðinlegt að lesa skrif sem eru tilvitnun í tilvitnun í tilvitnun. Notum eigin augu og skynfæri, rannsökum heiminn en ekki rit annarra manna. Göngum ekki um með augun í hnakkanum, tæki listamanna eru tilfinningar og innsæi, þannig er það.“Jarðbindingin er alvarlegt mál En hvernig er þá best að stuðla að list og sköpun í samfélaginu? „Listin hefur alltaf séð um sig sjálf. Þrátt fyrir skriffinnskuvæðinguna er gaman í listaskólum. Þetta er alls ekki dautt og listin finnur sínar leiðir, burtséð frá gráðum. Það er bara tímaspursmál hvenær viðspyrnan fer í gang og nemendur vakni og þróun fer aftur í rétta átt með nýrri kynslóð,“ segir Goddur. „Það er ekki hægt að kenna innsæi en það er hægt að opna fyrir það, vökva og næra. En það er líka hægt að skemma það. Náðargáfa er eitthvað sem allir hafa. Menn sjá það á börnum í leikskólum og til unglingsára, náðargáfa er sameign allra. Hún er þarna, en svo fer skólakerfið að murka lífið úr börnunum og biðja þau um að taka þetta líf alvarlega. Það er verið að jarðbinda börnin. Jarðbindingin er alvarlegt mál. En svo situr kannski eftir draumórafólkið sem skrifar dúllur og krotar í bækurnar sínar, nær að vernda sig fyrir jarðbindingunni og nær að viðhalda hæfileikanum til að sjá fyrir sér það óorðna, ófædda en mögulega. Við vorum oft skömmuð fyrir að taka inn börn listamanna í listaskólann. En staðreynd málsins var að við gátum ekki farið fram hjá þeim því þau höfðu einmitt verið vernduð, þroskuð og nærð. Því listnám, það hefst þegar þú ert barn og náðargáfan tilheyrir öllum þar til henni er ef til vill lokað. Sérstaklega af foreldrum sem skilja ekki barnið sitt.“„Listnám, það hefst þegar þú ert barn og náðargáfan tilheyrir öllum þar til henni er ef til vill lokað.“FBL/Ernir EyjólfssonKortleggur myndmálsarfinn Goddur kennir ekki að ráði lengur í listaháskólanum og hefur helgað sig rannsóknum. „Ég hef fólk í vinnu sem vinnur rannsóknarvinnu fyrir mig, ég er að reyna að koma strúktúr á þetta. Rannsóknarstarfið hófst fyrir meira en 20 árum fyrir sýninguna Mót á Kjarvalsstöðum árið 2000. Nú vinn ég við að ganga frá ævistarfinu og koma þessu frá mér,“ segir hann en á næstu árum er reiknað með sýningum og fyrirlestrum í tengslum við verkefnið og bókina Íslensk myndmálssaga. „Ég er að kortleggja myndmálsarfinn okkar og það hjálpar okkur að skilja áhrif myndmáls í samfélaginu. Það er ekki við starfsfólkið í skriffinnskunni að sakast heldur kerfið sjálft – samstarfsfólk mitt við Listaháskólann er frábært og um margt sammála mér, ég á því líka margt að þakka.“ Hann segir það gott hlutskipti að vera grafískur hönnuður. „Þessi stétt býr til útlitið á framtíðina, við fáum að heyra allt fyrst. Þegar verið er að gefa út plötu, skrifa bækur og halda tónleika. Grafískir hönnuðir eru í beinni snertingu við það sem kraumar í mannlífinu, þetta er skemmtilegur flötur á faginu,“ segir hann. Listsamfélög á landsbyggðinni Goddur hefur ekki eingöngu þörf fyrir að vera í snertingu við það sem er að gerjast í mannlífinu og menningunni. Hann hefur mikla þörf fyrir að komast út í íslenska landsbyggðarmenningu, hann horfir út um gluggann og segist ekki geta beðið eftir að komast út úr Reykjavík. „Sumir staðir taka frá þér orku, aðrir gefa þér hana. Ég hef enga þörf fyrir að fara til útlanda lengur, ég fer til Austfjarða og líka Vestfjarða. Þar næri ég mig, ég kæmist ekki af án þess. Það er líka margt að gerast á landsbyggðinni sem er gott í listum. Þar eru að byggjast upp samfélög listamanna, ég get nefnt sem dæmi Flateyri, Ísafjörð, Siglufjörð, Hjalteyri, Raufarhöfn, Seyðisfjörð og Stöðvarfjörð. Þangað hafa flutt listamenn sem markvisst stuðla að listsköpun og mér finnst alveg magnað að heimsækja þessa staði en líka auðvitað að vera í náttúrunni.“ Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Emilíana Torrini einhleyp Lífið „Á erfitt með að gera mér í hugarlund eitthvað rómantískara“ Makamál Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið Sjarmerandi íbúð listakonu til sölu Lífið Stórstjörnur flykkjast í verkefni Baltasars Bíó og sjónvarp „Vinkonusambönd virka aldrei ef það er afbrýðisemi“ Lífið Aðventan með Lindu Ben: Mjúkir kanilsnúðar með valhnetukaramellu Jól Eiríkur og Guðrún selja eitt fallegasta hús Vesturbæjarins Lífið Kári og Erla vilja 330 milljónir fyrir lúxusíbúð við höfnina Lífið Fólkið sem fer yfir tíu tonn af fatnaði á dag Lífið Fleiri fréttir Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Guðmundur Oddur Magnússon, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, alltaf kallaður Goddur, er með vinnustofu sína í húsi við Seljaveg í Reykjavík sem er verið að rífa. Allt í kring eru kranar og vinnuvélar að rífa niður húsveggi. Rétt við innganginn er risavaxið gat í gegnum alla bygginguna og blaðamaður þræðir sig í gegnum vinnusvæðið og veltir því fyrir sér hvort það hefði verið skynsamlegt að vera með hjálm. Eða hvort það er skynsamlegt að vera á svæðinu yfirhöfuð. En Goddur er sallarólegur. „Það á ekki að rífa niður þennan hluta hússins, fyrr en í byrjun júlí, ég treysti á að því seinki eitthvað eins og öllum framkvæmdum á Íslandi,“ segir hann. Hundurinn hans Pippa er félagi hans þennan daginn á litríkri vinnustofunni sem er hlaðin bókum, prentverki og plakötum. Goddur fékk fyrir ári úthlutaðan stóran rannsóknarstyrk frá Rannís, til tveggja ára, vegna verkefnisins „Sjónarfur í samhengi: notkun myndmáls í prentsögu Íslands frá 1844-1944“ og hann hefur ráðið fólk í rannsóknarvinnu. Síðar í sumar flytur hann vinnustofu sína í glæsilegt húsnæði í Gufunesi.Landnemi í Gufunesi „Ég verð landnemi í Gufunesi og flyt í húsnæði með sjö metra lofthæð. Ég hlakka til því þetta verður magnað samfélag að starfa í. Við þurfum að fara héðan í júlíbyrjun,“ segir Goddur og segist ekki munu sakna þess að starfa í miðbænum.„Lífræn sköpunarstarfsemi í miðbænum dó fyrir nokkrum árum. Listamenn leita að húsnæði þar sem eru ódýr pláss en þegar túrisminn hélt innreið sína voru allar fasteignir keyptar upp í miðbænum af fasteignafélögum og þeim breytt í hótelíbúðir og fleira. Skapandi fólk flykktist þá út á Granda og í austurborgina en nú er allt orðið of dýrt þar líka,“ segir hann og segir að það líti út fyrir að Reykjavíkurborg munu styðja listsamfélagið í Gufunesi. „Borgin verður þarna með húsnæði með vinnustofum og styður þannig við samfélagið, þarna verður líka ylströnd og stöndug kvikmyndafyrirtæki, til dæmis RVK Studios hans Baltasars. Það er margt komið í deigluna nú þegar vegna þessa nýja samfélags. Við ætlum til dæmis að búa til aðstöðu fyrir 35 hönnunarnema sem koma frá heitasta hönnunarskóla Hollands (KABK) hingað til lands. Þeir fá aðstöðu í Gufunesi í nokkra daga og í LungA-skólanum á Seyðisfirði,“ segir Goddur frá. LungA-skólinn er tilraunakenndur, alþjóðlegur listaskóli sem var stofnaður árið 2013 og tekur við nemendum víðsvegar að úr heiminum og á öllum aldri. Þó að Goddur kenni ekki lengur við Listaháskóla Íslands hefur hann verið viðloðandi starf LungA-skólans.Goddur og Pippa á vinnustofunni á Seljavegi.FBL/Ernir EyjólfssonKennarar séu vinir nemenda „LungA-skólinn er svo mikil fyrirmyndarstofnun að mínum smekk. Hann er ekki miðstýrður og þar er ekki áhugi á vandamálum fólks heldur eingöngu styrkleikum. Fólk fer í skólann af alls kyns ástæðum. Sem dæmi kom þarna kona sem var starfandi læknir en í strandi með líf sitt. Hún vaknaði upp við það einn daginn að hún hafði orðið læknir af því aðrir vildu það meira en hún sjálf. Foreldrar hennar voru læknar en hana langaði alltaf til þess að verða rithöfundur. Hún kom í skólann til þess að öðlast styrk til að breyta lífi sínu.“ Goddur tengir saman nám og sjálfsþekkingu. Bestu aðstæður til þess að laða fram styrkleika fólks séu krísur eða átök og hlutverk kennara í listum geti aldrei verið að leiða slíkt hjá sér. Þeir eigi að aðstoða ungt fólk við að finna sjálft sig og styrkleika sína. Góðir kennarar eru alltaf að læra sjálfir. „Ef ég verð ekki vinur nemenda minna get ég ekki lært með þeim. Það gerist eitthvað sem átti ekki endilega að gerast. Eitthvað smellur. Svoleiðis voru bestu kennarar mínir. Við bíðum stundum eftir þessu, bíðum eftir sprengjunni. Þetta er gullgerðarlistin, að leysa í sundur til að setja saman,“ segir Goddur sem segist þekkja það vel sjálfur að eiga ekki beina línu í námi. „Ég er „droppát“ úr menntaskóla og það tók mig síðan þrjár tilraunir að komast inn í Myndlista- og handíðaskólann. Ég brotnaði ekki heldur tvíefldist og kláraði fornámið á einu ári í stað tveggja og fór svo áfram í grafíkdeild og síðar í nýlistadeild. Síðar fór ég til Vancouver í Bresku-Kólumbíu til að læra grafíska hönnun. Síðan þá hef ég kennt þó að það hafi aldrei verið planið. Gamall bekkjarfélagi minn úr MA hitti Tryggva Gíslason, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, og spurði hann: Hvernig stendur eiginlega á því að Goddur er eini maðurinn í bekknum sem hlaut einhvern akademískan feril? Þá svaraði Tryggvi: Já. það gerði hann reyndar alveg hjálparlaust!“ Alltaf sól og stærri skaflar Goddur er fæddur og uppalinn á Akureyri. Foreldrar hans voru Gyða Gunnarsdóttir, ættuð úr Breiðafjarðareyjum, og Magnús Oddsson Strandamaður. „Ég er alinn upp á Ytri-Brekkunni á Akureyri, í Þórunnarstræti. Foreldrar mínir voru báðir af Vestfjörðum. Það er gott að koma til Akureyrar í smá tíma en fyrir mig og marga jafnaldra mína varð bærinn fljótlega allt of lítill. Ég á eina yngri systur, hún er vefari, býflugna- og æðarbóndi á eyju í Breiðafirði, ullarsérfræðingur og kennir textíl í Myndlistaskólanum í Reykjavík,“ segir Goddur. „Í minningunni var alltaf sól en líka miklu stærri skaflar á veturna en finnast í dag,“ segir hann og brosir. Goddur segir að hann hafi verið heppinn sem ungur strákur. Hann hafi fengið útrás fyrir sköpunarþörfina bæði í skátahreyfingunni og í gagnfræðaskóla. „Ég var með kennara sem tók eftir því að ég gat eitthvað. Hann gaukaði að mér betri blýöntum og pappír og sýndi mér hvernig verkfæri gátu hjálpað til, ég var dreginn áfram með þannig gulrót. Ég var líka partur af skátahreyfingunni þegar ég var yngri, þar gerði ég alls kyns veifur og myndskreytti fundabókina. Skátahreyfingin ól mig svolítið upp í þessu og svo vatt þetta upp á sig í skóla, ég teiknaði útskriftarárgangana í MA, setti upp skólablaðið og gerði plaköt fyrir félagslífið.“ Þegar Goddur hafði fundið sína fjöl í grafískri hönnun fór honum að ganga vel. Skólinn í Vancouver var byggður á póstmódernískri hugmyndafræði þar sem nemendur voru þjálfaðir jafnt í heimspeki listarinnar og tæknilegri verkkunnáttu. Hann naut þess einnig að á þeim tíma sem hann var í námi við MHÍ var mikil gerjun í skólanum.Goddur fékk fyrir ári úthlutaðan stóran rannsóknarstyrk frá Rannís, til tveggja ára, vegna verkefnisins „Sjónarfur í samhengi: notkun myndmáls í prentsögu Íslands frá 1844-1944.“FBL/Ernir EyjólfssonHjarta við hjarta „Á þessum tíma, árin 1975 til 1980, var mikið fjör í nýlistadeildinni, ég fór að kafa í það fjör. Þetta var svo mikið umbreytingatímabil,“ segir Goddur sem kynntist listamönnum sem fengust við nýlist. „Á þessum tíma urði skiptin. Fiftís módernistar voru hugsjónamenn, Evrópa var í rúst og þeir vildu alla þjóðerniskennda fitu út, og meinta upphafna snilligáfu. Þeir vildu finna sjónrænt esperantó og fara aftur í grunninn. En svo kemur önnur kynslóð sem hafði ekki þennan hugsjónaeld og eitthvað nýtt varð til. Á þessum mótunarárum mínum var okkur kennt að aðferðin var aukaatriði þó að hún þyrfti að hrífa fólk með sér, það sem var mikilvægt var að hafa eitthvað að segja. Listamenn voru alltaf spurðir: Í hvaða efni vinnur þú? Eins og það væri aðalatriði, og þá svaraði fólk: Tja, ég er aðallega í bronsi og stundum í leir. Svona myndi fólk aldrei svara í dag. En á þessum tíma þá æfðum við tungutakið og orðaforðann um listina. Við vorum bókstaflega teknir í gegn, það væri svo mikil lygi í heiminum að það skipti svo miklu máli að æfa sig í að segja satt. Ekki stóra sannleikann heldur skipti það máli að vera sannur sjálfum sér. Sannleikur hjartans. Það sem er fagurt er sannleikurinn, þegar hjarta talar við hjarta,“ segir Goddur og tekur gott dæmi um eitthvað sem er ekki eftir bókstafnum en er bæði satt og fagurt. Ljósið heima í Hafrafelli Þetta er saga af fermingardreng sem hét Dóri frá Hafrafelli. Hann átti erfitt með að fara með trúarjátninguna. Hann bara gat ekki lært hana utan að. Við fermingarundirbúninginn fór hann með þessa trúarjátningu: „Í upphafi skapaði guð himinn og jörð, Akureyri og Ísafjörð. Myrkrið í djúpinu og ljós í glugganum hjá mömmu á Hafrafelli.“ Auðvitað fékk drengurinn að fermast. Sagan sýnir að ef andinn er ekki í efninu þá er þetta einskis virði. Þá erum við bara að gera tækniæfingar. Margir geta gert hlutina vel en skortir að geta beitt tilfinningu og innsæi,“ segir Goddur. „Vitsmunagreind hjálpar ekki alltaf til við listsköpun því vitsmunir skapa ekki – hins vegar eru þeir ágætis aftursætisbílstjóri.“„Það er verið að jarðbinda börnin. Jarðbindingin er alvarlegt mál. En svo situr kannski eftir draumórafólkið sem skrifar dúllur og krotar í bækurnar sínar, nær að vernda sig fyrir jarðbindingunni.“ FBL/Ernir EyjólfssonGoddur segir listnám ekki vera að þróast í rétta átt. Háskólavæðing í listgreinum sé ekki til þess fallin að efla sköpun. „Sannleikurinn er sá að við sem unnum að þessari háskólavæðingu og þar er ég ekki saklaus, beygðum okkur um of gagnvart skriffinnskuvaldi. Þessi skriffinnska sem fylgir háskólavæðingu listgreina hófst í Bandaríkjunum og þá var hlegið að þessu í Evrópu, en nú erum við í Evrópu komin á sama stað. Við grínuðumst með það á sínum tíma hvort við ættum að halda yfirlitssýningu þeirra sem yrðu með doktorsgráðu í myndlist. Það gæti nú verið skelfileg sýning,“ segir Goddur og skellir upp úr. „Bara alveg hreint skelfileg. Staðreyndin er sú að listaháskólar, ekki bara hér heldur úti um allt, eru farnir að framleiða Salieri-týpur en Mozart er felldur vegna þess að hann snýr sólarhringnum við,“ segir Goddur og nú er brosið alveg horfið og alvara málsins tekin við. „Ég er ekkert að segja að ég hafi hjálpað mörgum að skrifa ritgerðirnar sínar. En ég hef lesið stórgóðar dyslexískar ritgerðir þar sem er gengið skítugum skónum um heimildir. Það er sama hvaðan gott kemur. Mér finnst leiðinlegt að lesa skrif sem eru tilvitnun í tilvitnun í tilvitnun. Notum eigin augu og skynfæri, rannsökum heiminn en ekki rit annarra manna. Göngum ekki um með augun í hnakkanum, tæki listamanna eru tilfinningar og innsæi, þannig er það.“Jarðbindingin er alvarlegt mál En hvernig er þá best að stuðla að list og sköpun í samfélaginu? „Listin hefur alltaf séð um sig sjálf. Þrátt fyrir skriffinnskuvæðinguna er gaman í listaskólum. Þetta er alls ekki dautt og listin finnur sínar leiðir, burtséð frá gráðum. Það er bara tímaspursmál hvenær viðspyrnan fer í gang og nemendur vakni og þróun fer aftur í rétta átt með nýrri kynslóð,“ segir Goddur. „Það er ekki hægt að kenna innsæi en það er hægt að opna fyrir það, vökva og næra. En það er líka hægt að skemma það. Náðargáfa er eitthvað sem allir hafa. Menn sjá það á börnum í leikskólum og til unglingsára, náðargáfa er sameign allra. Hún er þarna, en svo fer skólakerfið að murka lífið úr börnunum og biðja þau um að taka þetta líf alvarlega. Það er verið að jarðbinda börnin. Jarðbindingin er alvarlegt mál. En svo situr kannski eftir draumórafólkið sem skrifar dúllur og krotar í bækurnar sínar, nær að vernda sig fyrir jarðbindingunni og nær að viðhalda hæfileikanum til að sjá fyrir sér það óorðna, ófædda en mögulega. Við vorum oft skömmuð fyrir að taka inn börn listamanna í listaskólann. En staðreynd málsins var að við gátum ekki farið fram hjá þeim því þau höfðu einmitt verið vernduð, þroskuð og nærð. Því listnám, það hefst þegar þú ert barn og náðargáfan tilheyrir öllum þar til henni er ef til vill lokað. Sérstaklega af foreldrum sem skilja ekki barnið sitt.“„Listnám, það hefst þegar þú ert barn og náðargáfan tilheyrir öllum þar til henni er ef til vill lokað.“FBL/Ernir EyjólfssonKortleggur myndmálsarfinn Goddur kennir ekki að ráði lengur í listaháskólanum og hefur helgað sig rannsóknum. „Ég hef fólk í vinnu sem vinnur rannsóknarvinnu fyrir mig, ég er að reyna að koma strúktúr á þetta. Rannsóknarstarfið hófst fyrir meira en 20 árum fyrir sýninguna Mót á Kjarvalsstöðum árið 2000. Nú vinn ég við að ganga frá ævistarfinu og koma þessu frá mér,“ segir hann en á næstu árum er reiknað með sýningum og fyrirlestrum í tengslum við verkefnið og bókina Íslensk myndmálssaga. „Ég er að kortleggja myndmálsarfinn okkar og það hjálpar okkur að skilja áhrif myndmáls í samfélaginu. Það er ekki við starfsfólkið í skriffinnskunni að sakast heldur kerfið sjálft – samstarfsfólk mitt við Listaháskólann er frábært og um margt sammála mér, ég á því líka margt að þakka.“ Hann segir það gott hlutskipti að vera grafískur hönnuður. „Þessi stétt býr til útlitið á framtíðina, við fáum að heyra allt fyrst. Þegar verið er að gefa út plötu, skrifa bækur og halda tónleika. Grafískir hönnuðir eru í beinni snertingu við það sem kraumar í mannlífinu, þetta er skemmtilegur flötur á faginu,“ segir hann. Listsamfélög á landsbyggðinni Goddur hefur ekki eingöngu þörf fyrir að vera í snertingu við það sem er að gerjast í mannlífinu og menningunni. Hann hefur mikla þörf fyrir að komast út í íslenska landsbyggðarmenningu, hann horfir út um gluggann og segist ekki geta beðið eftir að komast út úr Reykjavík. „Sumir staðir taka frá þér orku, aðrir gefa þér hana. Ég hef enga þörf fyrir að fara til útlanda lengur, ég fer til Austfjarða og líka Vestfjarða. Þar næri ég mig, ég kæmist ekki af án þess. Það er líka margt að gerast á landsbyggðinni sem er gott í listum. Þar eru að byggjast upp samfélög listamanna, ég get nefnt sem dæmi Flateyri, Ísafjörð, Siglufjörð, Hjalteyri, Raufarhöfn, Seyðisfjörð og Stöðvarfjörð. Þangað hafa flutt listamenn sem markvisst stuðla að listsköpun og mér finnst alveg magnað að heimsækja þessa staði en líka auðvitað að vera í náttúrunni.“
Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Emilíana Torrini einhleyp Lífið „Á erfitt með að gera mér í hugarlund eitthvað rómantískara“ Makamál Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið Sjarmerandi íbúð listakonu til sölu Lífið Stórstjörnur flykkjast í verkefni Baltasars Bíó og sjónvarp „Vinkonusambönd virka aldrei ef það er afbrýðisemi“ Lífið Aðventan með Lindu Ben: Mjúkir kanilsnúðar með valhnetukaramellu Jól Eiríkur og Guðrún selja eitt fallegasta hús Vesturbæjarins Lífið Kári og Erla vilja 330 milljónir fyrir lúxusíbúð við höfnina Lífið Fólkið sem fer yfir tíu tonn af fatnaði á dag Lífið Fleiri fréttir Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira