Erlent

Yfirburðir Modis raktir til þjóðernishyggju

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Nordicphotos/AFP
Slæmt efnahagsástand, mikið atvinnuleysi og skattastefna sem stefndi litlum og meðalstórum fyrirtækjum í lífshættu – þættir sem þessir hefðu alla jafna komið í veg fyrir að Narendra Modi og BJP-flokkurinn ynnu stórsigur í nýafstöðnum kosningum á Indlandi. Þetta kom fram í umfjöllun Foreign Policy. Allt kom þó fyrir ekki, BJP fékk 303 þingsæti af 543, kosningabandalag flokksins heil 352 og Modi situr áfram sem fastast.

Útskýra má þennan óvenjulega stórsigur Modis, samkvæmt Foreign Policy, með því að forsætisráðherrann hafi náð að ala á ótta gagnvart ólöglegum innflytjendum, þjóðaröryggishættum og hryðjuverkasamtökum. Hann hafi, með þjóðernishyggjuna að vopni, náð að fylkja hindúum að baki sér. Þetta mátti til að mynda sjá á sigurræðu Modis þar sem hann sagði veraldarhyggjuna og hugmyndina um aðskilnað ríkis og trúar hefðu borið skipbrot.

Haft var eftir Mohan Bhagwat, einum hugmyndasmiða BJP, í þessu samhengi að íbúar Indlands væru hindúar. BJP hafi því komið því í gegn á síðasta ári að múslimar í ríkjum á borð við Assam, sem er á landamærunum við Bangladess og hýsir því nokkurn fjölda múslima, yrðu með í manntalinu. Þessir múslimar voru því ekki á kjörskrá en hefðu trúlega síður kosið BJP enda byggist flokkurinn á hindúaþjóðernishyggju.

Í ljósi stefnumála má segja að Modi sé nokkurs konar indversk hliðstæða Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Áherslan liggur á þjóðaröryggi gagnvart utanaðkomandi ógn á borð við ólöglega innflytjendur og hryðjuverkasamtök. Þá fullyrða báðir að „hinn þögli meirihluti“ styðji sig. Hins vegar virðist staða Modis mun sterkari en Trumps, sé miðað við kosningarnar á Indlandi og skoðanakannanir í Bandaríkjunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×