Innlent

Leita að konu ofan við Dalvík

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Björgunarsveitin í Dalvík freistar þess nú að staðsetja konuna með aðstoð dróna.
Björgunarsveitin í Dalvík freistar þess nú að staðsetja konuna með aðstoð dróna. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitinni í Dalvík barst á fimmta tímanum í dag útkall vegna konu sem hafði náð að koma sér í ógöngur á svæðinu rétt ofan við Dalvík. Konan lagði af stað í göngu fyrir hádegi í dag.

Hópur björgunarsveitarfólks er mættur á leitarsvæðið og freistar þess nú að staðsetja konuna með aðstoð dróna því konan gat ekki gefið nákvæma staðsetningu.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að drónar hafi áður reynst björgunarsveitinni vel við leit að göngufólki.

Þetta var þriðja útkall dagsins hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar en fyrr í dag fóru björgunarsveitir á Snæfellsnesi og Ísafirði einnig í útköll.

Í morgun sótti björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði vélarvana bát norður af Straumsnesi. Draga þrufti bátinn til Bolungarvíkur. Í höfn var komið um eitt leytið í dag.

Skömmu síðar var björgunarsveit á Snæfellsnesi kölluð út til aðstoðar sjúkraflutningamönnum vegna einstaklings sem slasaðist á göngu að Lónadröngum við Malarrif. Verkefninu lauk um fjögur leytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×