Tónlist

Dr John frá New Orleans fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Dr John hét Malcolm John Rebennack yngri réttu nafni og vann hann á ferli sínum sex sinnum til Grammyverðlauna.
Dr John hét Malcolm John Rebennack yngri réttu nafni og vann hann á ferli sínum sex sinnum til Grammyverðlauna. Getty
Bandaríski tónlistarmaðurinn Dr John, sem ætíð verður tengdur við tónlistarsenuna í New Orleans, er látinn, 77 ára að aldri. Hann lést í gær eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Greint var frá andláti Dr John á Twitter-síðu tónlistarmannsins. Í frétt BBC segir að í tónlist sinni hafi Dr John blandað saman ólíkum tónlistarstefnum – blús, popptónlist, djass og rokki. Hann hét Malcolm John Rebennack yngri réttu nafni og vann hann á ferli sínum sex sinnum til Grammyverðlauna.

Tónlistarferill hans hófst á sjötta áratugnum þar sem hann vakti athygli sem píanóleikari á skemmtistöðum í New Orleans. Hann sló svo í gegn með plötu sinni Gris-Gris sem kom út árið 1968. Hann er þó þekkastur fyrir lag sitt Right Place, Wrong Time frá árinu 1973.

Dr John, sem glímdi lengi við fíkniefnadjöfulinn, var tekinn inn í Frægðarhöll rokksins árið 2011. Hann gaf út 35 plötur á ferli sínum.

Hann gekk tvívegis í hjónaband og sagði í viðtaki við New York Times að hann ætti „fullt af börnum“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×