Fótbolti

Fjölnir afgreiddi nýliðana, Þróttarar tóku þrjú stig á Ásvöllum og markalaust í Suðurnesjaslagnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bergsveinn skoraði eitt mark í kvöld.
Bergsveinn skoraði eitt mark í kvöld. vísir/anton
Keflavík er á toppi Inkasso-deildar karla og enn taplaust eftir að liðið gerði markalaust jafntefli við Njarðvík í Suðurnesjaslag í kvöld.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld en rúmlega 700 áhorfendur voru á leiknum. Bæði lið fengu sín færi en ekki tókst þeim að koma boltanum í netið.

Keflavík er á toppi deildarinnar með tíu stig en liðið hefur unnið þrjá og gert eitt jafntefli. Njarðvík er í fjórða sætinu með sjö stig.

Fjölnir er í öðru sætinu með níu stig eftir 3-1 sigur á nýliðum Aftureldingar í Mosfellsbænum í kvöld. Bergsveinn Ólafsson kom Fjölni yfir en unglingalandsliðsmaðurinn Róbert Orri Þorkelsson jafnaði.

Albert Brynjar Ingason kom Fjölni í 2-1 á 64. mínútu en þriðja markið skoraði varamaðurinn Kristófer Óskar Óskarsson, þremur mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Afturelding er í tíunda sætinu með þrjú stig, einu stigi meira en Haukar sem sitja sæti neðar, en Haukarnir töpuðu 4-2 í markaleik gegn Þrótturum á Schenkervöllum í kvöld.

Sean De Silva kom Haukum yfir strax á fyrstu sekúndum leiksins en Ágúst Leó Björnsson jafnaði á 19. mínútu. Innan við mínútu síðar skoraði Sean annað mark sitt og annað mark Hauka.

Fjörið í fyrri hálfleik var ekki lokið því mínútu síðar jafnaði Lárus Björnsson metin. Jasper Van Der Heyden kom Þrótt svo í 3-2 á 25. mínútu og fimm mörk í fyrri hluta fyrri hálfleiks.

Ótrúlegar mínútur en eina mark síðari hálfleiks skoraði Jasper. Hann skoraði þá eftir mistök í vörn Hauka en sending til baka rataði beint í fætur Jasper.

Lokatölur 4-2 og Þróttarar í sjötta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×