Tíska og hönnun

Ungir viðskiptavinir þeir kröfuhörðustu

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Daniel Herman segir Weekday munu ganga enn lengra í stefnu sinni á næsta ári.
Daniel Herman segir Weekday munu ganga enn lengra í stefnu sinni á næsta ári.
Fyrir árið 2030 stefna öll fyrirtæki í eigu H&M-samsteypunnar á að nota aðeins endurunnin eða sjálfbær hráefni og markmiðið fyrir árið 2040 er að með framleiðslu á fatnaði dragi fyrirtækið úr neikvæðum loftlagsáhrifum. Samsteypan er annar stærsti söluaðili fatnaðar í heiminum. Hún opnaði á síðasta ári H&M-verslanir hér á landi og hefur nú einnig opnað verslanir Cos, Monki og Weekday sem allar eru í eigu HM.

Í dag er hlutfall endurunninna og sjálfbærra hráefna í heildina 57% svo fyrirtækinu gengur ágætlega að komast nær markmiði sínu. Fatamerkið Weekday er hins vegar einna lengst komið og hefur að auki margvísleg sjálfstæð samfélagsleg markmið.

„Fyrirtæki þurfa að hegða sér eins og góðar manneskjur og ávinna sér virðingu fólks og viðskiptavina sinna,“ segir Daniel Herrman, framkvæmdastjóri Weekday. „Sjálfbærni skiptir öllu máli en einnig að huga að samfélagslegri ábyrgð í víðara samhengi, að því höfum við unnið. Það sem er rétt fyrir viðskiptavininn er líka rétt fyrir okkur og jörðina,“ segir hann og segir Weekday munu ganga enn lengra í stefnu sinni strax á næsta ári.



Weekday starfar með ungu listafólki þar sem það starfrækir verslanir sínar. „Það er ekki hægt að segja ungu fólki hvað er í tísku, það verður að fá að hafa áhrif á það sjálft. Við viljum ekki boða sömu áherslur fyrir alla,“ segir Daniel sem segir unga viðskiptavini þá allra kröfuhörðustu. Það sé jákvætt og muni hafa góð áhrif á tískuiðnaðinn sem sé í hraðri þróun.

„Það er engin ein framtíð ljós, því það eru margar leiðir til þess að tengjast fólki. Við kjósum að tengjast fólki í gegnum listir og sköpun. Það eru þó vissir hlutir í þróun samfélagsins sem munu hafa mikil áhrif, tæknibreytingar, sjálfbærni og umhverfið en líka siðferði og réttlæti,“ segir Daniel. 

Uppfært klukkan 15: Samkvæmt athugasemd frá fjölmiðlafulltrúa H&M á Íslandi er hlutfall endurunninna og sjálfbærra hráefna hjá fyrirtækinu 57% eftir því er kemur fram í sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.