Paul segir mikilvægt fyrir börnin í skólanum að fá aukin tækifæri og von til betra lífs en mikil fátækt er á svæðinu „Menntun eykur lífsgæði fólksins, veitir því öryggi og tækifæri. Fótboltinn getur svo aukið tækifærin enn frekar auk þess að skapa liðsheild og samvinnu. Fótbolti færir fólk saman.“

Paul var áberandi í íslenskum fjölmiðlum árið 2008 þegar honum var vísað úr landi og fjölskyldu hans var tvístrað. Kona hans og barn urðu eftir á Íslandi. Paul fékk ásamt fjölskyldu sinni hæli á Íslandi árið 2010 og segir hann að þessi reynsla hafi styrkt hann í því sem á eftir kom. „Það að lenda í lífsreynslu sem þessari getur haft styrkjandi áhrif á einstaklinga, það skiptir bara máli hvernig maður horfir á hlutina.“
Aðspurður hvers vegna þau hjónin hafi ráðist í þetta verkefni segir Paul að það jafnrétti sem náðst hafi hér á landi hafi vakið þau til umhugsunar um ástandið í Kenýa. „Systir mín varð ólétt að sínu fyrsta barni þegar hún var aðeins 12 ára, hún eignaðist ellefu börn. Þetta er ekki óalgengt í Kenýa. Okkur langaði að valdefla konur á okkar heimaslóðum þar sem ástandið er ólíkt ástandinu hér. Það vildum við gera með því að mennta fólk og efla konur. Fótboltinn var svo góð viðbót.“
Paul bætir því við að krakkarnir séu þakklátir þeim stuðningi sem Íslendingar hafi sýnt þeim. „Krakkarnir vita að þau eigi vini á Íslandi og að Íslendingar séu ástæða þess að þau geti farið í skóla og stundað fótbolta. Þetta vekur gleði hjá krökkunum og fjölskyldum þeirra. Það væri því frábært fyrir krakkana að geta komið til Íslands og kynnst betur landi og þjóð og þakkað fyrir sig.“
Frekari upplýsingar um hvernig leggja má verkefninu lið er að finna á Facebook-síðunni: Leiðin frá Got Agulu á Rey Cup.