Mannanna misráðnu verk Sigríður Jónsdóttir skrifar 3. maí 2019 10:00 Loddarinn er ögrandi og snjöll sýning sem kitlar bæði hláturtaugarnar og krefst umhugsunar. Mynd/Hörður Sveinsson Ófremdarástand ríkir á yfirstéttarheimili Orgeirs. Andlegur kuklari og smákrimmi að nafni Guðreður hefur smokrað sér inn á ættaróðalið undir verndarvæng heimilisföðurins sem sér ekki sólina fyrir afturendanum á honum. Nánasta fjölskylda Orgeirs leggst á eitt um að bola þessum loddara út hið snarasta. Síðastliðinn laugardag frumsýndi Þjóðleikhúsið klassíska gamanleikinn Loddarann eftir franska leikskáldið Molière, í uppfærðri útgáfu sem Hallgrímur Helgason þýðir, leikstjóri er Svisslendingurinn Stefan Metz. Frá fyrstu frumsýningu í Frakklandi árið 1664 hefur Loddari Molière verið umdeilt leikverk enda hörð ádeila, í grínbúningi þó, um úrkynjun yfirstéttarinnar sem yfirleitt flýtur í sömu skútu og trúarlegar stofnanir. Klassíkin hefur þann einstaka eiginleika að endurspegla samtímann og melódrama Molière er þar engin undantekning. Þýðing Hallgríms Helgasonar er með hans allra bestu á starfsferlinum. Rímið er lipurt, textinn troðfullur af innsæi í bland við biksvartan húmor samanber yfirlýsingu þjónustustúlkunnar Dóru: „Með æðisköstum enginn sigur vinnst. / Faðir þinn hefur aðeins á það minnst / og ekki verða alltaf orð að gerðum, / til framkvæmdar er hugmynd hæg í ferðum.“Öruggar leikstjórahendur Síðustu sýningar Stefan Metz hafa átt við galla að stríða en Loddarinn er í mjög öruggum leikstjórahöndum. Hvert smáatriði á sviðinu er úthugsað inn í heildarmyndina og óvæntustu leikmunir öðlast táknrænt mikilvægi. Samskipti milli karaktera eru þó sett í algjöran forgang þannig að stundum neistar þar á milli, leikurinn er lifandi og hver persóna dregin upp með skörpum áherslum. Verkið er krufið með kómíkina að vopni en undir krauma rammpólitísk skilaboð. Áhorfendum er hent inn í melódramatískar fjölskylduerjur en Metz hikar ekki við að hnika aðeins til í handritinu og draga fram stærri vangaveltur en þær sem liggja á yfirborðinu. Orgeir, höfuð umræddrar fjölskyldu, mætir ekki á sviðið strax en völd hans innan fjölskyldunnar eru áþreifanleg og afdrifarík þrátt fyrir fjarveruna. Hann bauð Guðreði inn á heimilið, treystir honum og trúir. Guðjón Davíð Karlsson leikur Orgeir eins og sakleysingja sem er algjörlega viss í sinni trú þangað til sannleikurinn er bókstaflega beraður fyrir honum. En að sama skapi þræðir hann forréttindafrekju fallega inn í framkomu þessa einfeldnings. Eiginkona Orgeirs, Elmíra, leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur, veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Ásótt úr öllum áttum, hundsuð af eiginmanni sínum og umkringd krefjandi börnum, stendur hún tilbúin í slag en veit ekki hvert hún á sér að snúa. Í höndum Nínu Daggar verður örvænting Elmíru grátbrosleg og nær frábær frammistaða hennar húmorísku hámarki þegar Elmíra ætlar að narra Guðreð í gildru.Nánast liðamótalaus Börnin þeirra tvö, Maríanna og Danni, eru leikin af Láru Jóhönnu Jónsdóttur og Oddi Júlíussyni. Bæði iða þau í skinninu að koma ófétinu út úr húsinu en eru bæði of reynslulítil til að gera greinarmun á gjörðum og skipulögðum plönum. Lára Jóhanna er svolítið aftengd melódramanu og hefði mátt leyfa sér stærri tilfinningaskala, þó á hún góða spretti sérstaklega í fyrri hluta sýningar. Oddur aftur á móti tætir sig í gegnum tilfinningaskalann af miklum móð, líkt og unga fólkið á til, og virðist nánast liðamótalaus þegar kemur að líkamsbeitingu. Þar á milli koma karakterar sem spanna siðferðilegt róf leikritsins, annars vegar Frú Petrúnella leikin af Ragnheiði Steindórsdóttur og hins vegar Klængur leikinn af Baldri Trausta Hreinssyni. Sú fyrri er algjörlega blinduð af guðlegum anda Guðreðs en Klængur reynir að vera rödd sannleikans. Bæði skila þau þessum smáu hlutverkum af næmni. Dóra Jóhannsdóttir leikur síðan Völu, ástkonu Maríönnu, með ágætum en eitthvað vantaði upp á ástarblossann þeirra á milli, og hæglega hefði verið hægt að skrúfa meira upp í ýkjunum líkt og hún gerir skemmtilega þegar lögfræðingurinn Lögmær mætir skelegg og plöstuð undir lok leiks. Kristín Þóra Haraldsdóttir sýnir hér enn fleiri hliðar á sínum fjölbreyttu hæfileikum, sem dafnað hafa með hverju leikári. Harmleikur þjónustustúlkunnar Dóru er að yfirstéttin hlustar ekki á þá sem eru lægra settir, þrátt fyrir að þeir segi sannleikann, þó er ætlast til að þeir taki til ósómann sem eftir verður. Þetta skynjar Kristín Þóra og kemur tilfinningalega vel til skila, bæði með húmor og ákefð, svo ekki sé minnst á frábæra líkamstjáningu. Fyrstu kynni áhorfenda af loddaranum sjálfum koma ekki með flugeldasýningu heldur undirstrikar innkoman hversu ósköp venjulegur Guðreður er í raun. Hilmir Snær Guðnason lallar hæglátlega inn á sviðið, afslappaður úlfur í sauðargæru. Einungis smeðjulegur slúbbert með smáborgaralega drauma. Nálgun hans er blæbrigðamikil, bæði í leik og framsögn, og gæðin stigmagnast eftir því sem líða tekur á. Tímasetningar hans eru sömuleiðis stórkostlegar; hann leyfir löngum þögnum að dafna, tjáir stórar hugsanir með smáum andlitshreyfingum og keyrir upp tempóið þegar þess þarf. Hilmir leikur Guðreð ekki sem hrotta eða vanvita heldur fremur subbulegan svindlara sem kann að grípa gæsina þegar hún gefst.Smáatriðin krydda Sean Mackaoui er tíður samstarfsmaður Metz. Leikmynd hans er einföld á yfirborðinu en er bæði fagurfræðilega sterk og skýr. Litróf sviðsins endurspeglar ofurraunveruleika sýningarinnar smekklega með sterkum litum, en alltaf er Guðreður mótvægið með sínum svarthvíta klæðnaði. Smáatriðin krydda heildarmyndina s.s. slökkvitækið í bakgrunni, allir vita að kviknað er í húsinu en fjölskyldufaðirinn gerir ekkert. Sömuleiðis eru páfuglarnir í horninu áminning um hversu aftengd raunveruleikanum fjölskyldan er í raun og veru. Búningarnir eru á sömu bylgjulengd þar sem sterkir litir og áferðarfögur hönnun ráða ríkjum. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar hreinlega dansar innan veggjanna þriggja og dregur sterkan hjúp utan um sýninguna. Elvar Geir Sævarsson fullkomnar síðan þrenninguna með þrusufínni og dillandi hljóðmynd þar sem fremur hallærislegt hljómborð leikur stórt hlutverk. Loddarinn er ögrandi og snjöll sýning sem kitlar bæði hláturtaugarnar og krefst umhugsunar. Aulahúmorinn ræður ríkjum en í heiminum sem Stefan Metz setur fram hefur aulaskapur afleiðingar. Mannfólkið smíðar sína eigin gæfu en verður sömuleiðis að bera ábyrgð á sínum afglöpum. Leikárið hjá Þjóðleikhúsinu hefur verið upp og ofan en það má með sanni segja að Loddarinn loki því með eftirminnilegum hvelli.Sótsvartur og bráðfyndinn gamanleikur fyrir okkar tíma. Ein af albestu leiksýningum ársins. Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Mest lesið Emilíana Torrini einhleyp Lífið „Á erfitt með að gera mér í hugarlund eitthvað rómantískara“ Makamál Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið Sjarmerandi íbúð listakonu til sölu Lífið Stórstjörnur flykkjast í verkefni Baltasars Bíó og sjónvarp „Vinkonusambönd virka aldrei ef það er afbrýðisemi“ Lífið Aðventan með Lindu Ben: Mjúkir kanilsnúðar með valhnetukaramellu Jól Eiríkur og Guðrún selja eitt fallegasta hús Vesturbæjarins Lífið Kári og Erla vilja 330 milljónir fyrir lúxusíbúð við höfnina Lífið Fólkið sem fer yfir tíu tonn af fatnaði á dag Lífið Fleiri fréttir Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Ófremdarástand ríkir á yfirstéttarheimili Orgeirs. Andlegur kuklari og smákrimmi að nafni Guðreður hefur smokrað sér inn á ættaróðalið undir verndarvæng heimilisföðurins sem sér ekki sólina fyrir afturendanum á honum. Nánasta fjölskylda Orgeirs leggst á eitt um að bola þessum loddara út hið snarasta. Síðastliðinn laugardag frumsýndi Þjóðleikhúsið klassíska gamanleikinn Loddarann eftir franska leikskáldið Molière, í uppfærðri útgáfu sem Hallgrímur Helgason þýðir, leikstjóri er Svisslendingurinn Stefan Metz. Frá fyrstu frumsýningu í Frakklandi árið 1664 hefur Loddari Molière verið umdeilt leikverk enda hörð ádeila, í grínbúningi þó, um úrkynjun yfirstéttarinnar sem yfirleitt flýtur í sömu skútu og trúarlegar stofnanir. Klassíkin hefur þann einstaka eiginleika að endurspegla samtímann og melódrama Molière er þar engin undantekning. Þýðing Hallgríms Helgasonar er með hans allra bestu á starfsferlinum. Rímið er lipurt, textinn troðfullur af innsæi í bland við biksvartan húmor samanber yfirlýsingu þjónustustúlkunnar Dóru: „Með æðisköstum enginn sigur vinnst. / Faðir þinn hefur aðeins á það minnst / og ekki verða alltaf orð að gerðum, / til framkvæmdar er hugmynd hæg í ferðum.“Öruggar leikstjórahendur Síðustu sýningar Stefan Metz hafa átt við galla að stríða en Loddarinn er í mjög öruggum leikstjórahöndum. Hvert smáatriði á sviðinu er úthugsað inn í heildarmyndina og óvæntustu leikmunir öðlast táknrænt mikilvægi. Samskipti milli karaktera eru þó sett í algjöran forgang þannig að stundum neistar þar á milli, leikurinn er lifandi og hver persóna dregin upp með skörpum áherslum. Verkið er krufið með kómíkina að vopni en undir krauma rammpólitísk skilaboð. Áhorfendum er hent inn í melódramatískar fjölskylduerjur en Metz hikar ekki við að hnika aðeins til í handritinu og draga fram stærri vangaveltur en þær sem liggja á yfirborðinu. Orgeir, höfuð umræddrar fjölskyldu, mætir ekki á sviðið strax en völd hans innan fjölskyldunnar eru áþreifanleg og afdrifarík þrátt fyrir fjarveruna. Hann bauð Guðreði inn á heimilið, treystir honum og trúir. Guðjón Davíð Karlsson leikur Orgeir eins og sakleysingja sem er algjörlega viss í sinni trú þangað til sannleikurinn er bókstaflega beraður fyrir honum. En að sama skapi þræðir hann forréttindafrekju fallega inn í framkomu þessa einfeldnings. Eiginkona Orgeirs, Elmíra, leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur, veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Ásótt úr öllum áttum, hundsuð af eiginmanni sínum og umkringd krefjandi börnum, stendur hún tilbúin í slag en veit ekki hvert hún á sér að snúa. Í höndum Nínu Daggar verður örvænting Elmíru grátbrosleg og nær frábær frammistaða hennar húmorísku hámarki þegar Elmíra ætlar að narra Guðreð í gildru.Nánast liðamótalaus Börnin þeirra tvö, Maríanna og Danni, eru leikin af Láru Jóhönnu Jónsdóttur og Oddi Júlíussyni. Bæði iða þau í skinninu að koma ófétinu út úr húsinu en eru bæði of reynslulítil til að gera greinarmun á gjörðum og skipulögðum plönum. Lára Jóhanna er svolítið aftengd melódramanu og hefði mátt leyfa sér stærri tilfinningaskala, þó á hún góða spretti sérstaklega í fyrri hluta sýningar. Oddur aftur á móti tætir sig í gegnum tilfinningaskalann af miklum móð, líkt og unga fólkið á til, og virðist nánast liðamótalaus þegar kemur að líkamsbeitingu. Þar á milli koma karakterar sem spanna siðferðilegt róf leikritsins, annars vegar Frú Petrúnella leikin af Ragnheiði Steindórsdóttur og hins vegar Klængur leikinn af Baldri Trausta Hreinssyni. Sú fyrri er algjörlega blinduð af guðlegum anda Guðreðs en Klængur reynir að vera rödd sannleikans. Bæði skila þau þessum smáu hlutverkum af næmni. Dóra Jóhannsdóttir leikur síðan Völu, ástkonu Maríönnu, með ágætum en eitthvað vantaði upp á ástarblossann þeirra á milli, og hæglega hefði verið hægt að skrúfa meira upp í ýkjunum líkt og hún gerir skemmtilega þegar lögfræðingurinn Lögmær mætir skelegg og plöstuð undir lok leiks. Kristín Þóra Haraldsdóttir sýnir hér enn fleiri hliðar á sínum fjölbreyttu hæfileikum, sem dafnað hafa með hverju leikári. Harmleikur þjónustustúlkunnar Dóru er að yfirstéttin hlustar ekki á þá sem eru lægra settir, þrátt fyrir að þeir segi sannleikann, þó er ætlast til að þeir taki til ósómann sem eftir verður. Þetta skynjar Kristín Þóra og kemur tilfinningalega vel til skila, bæði með húmor og ákefð, svo ekki sé minnst á frábæra líkamstjáningu. Fyrstu kynni áhorfenda af loddaranum sjálfum koma ekki með flugeldasýningu heldur undirstrikar innkoman hversu ósköp venjulegur Guðreður er í raun. Hilmir Snær Guðnason lallar hæglátlega inn á sviðið, afslappaður úlfur í sauðargæru. Einungis smeðjulegur slúbbert með smáborgaralega drauma. Nálgun hans er blæbrigðamikil, bæði í leik og framsögn, og gæðin stigmagnast eftir því sem líða tekur á. Tímasetningar hans eru sömuleiðis stórkostlegar; hann leyfir löngum þögnum að dafna, tjáir stórar hugsanir með smáum andlitshreyfingum og keyrir upp tempóið þegar þess þarf. Hilmir leikur Guðreð ekki sem hrotta eða vanvita heldur fremur subbulegan svindlara sem kann að grípa gæsina þegar hún gefst.Smáatriðin krydda Sean Mackaoui er tíður samstarfsmaður Metz. Leikmynd hans er einföld á yfirborðinu en er bæði fagurfræðilega sterk og skýr. Litróf sviðsins endurspeglar ofurraunveruleika sýningarinnar smekklega með sterkum litum, en alltaf er Guðreður mótvægið með sínum svarthvíta klæðnaði. Smáatriðin krydda heildarmyndina s.s. slökkvitækið í bakgrunni, allir vita að kviknað er í húsinu en fjölskyldufaðirinn gerir ekkert. Sömuleiðis eru páfuglarnir í horninu áminning um hversu aftengd raunveruleikanum fjölskyldan er í raun og veru. Búningarnir eru á sömu bylgjulengd þar sem sterkir litir og áferðarfögur hönnun ráða ríkjum. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar hreinlega dansar innan veggjanna þriggja og dregur sterkan hjúp utan um sýninguna. Elvar Geir Sævarsson fullkomnar síðan þrenninguna með þrusufínni og dillandi hljóðmynd þar sem fremur hallærislegt hljómborð leikur stórt hlutverk. Loddarinn er ögrandi og snjöll sýning sem kitlar bæði hláturtaugarnar og krefst umhugsunar. Aulahúmorinn ræður ríkjum en í heiminum sem Stefan Metz setur fram hefur aulaskapur afleiðingar. Mannfólkið smíðar sína eigin gæfu en verður sömuleiðis að bera ábyrgð á sínum afglöpum. Leikárið hjá Þjóðleikhúsinu hefur verið upp og ofan en það má með sanni segja að Loddarinn loki því með eftirminnilegum hvelli.Sótsvartur og bráðfyndinn gamanleikur fyrir okkar tíma. Ein af albestu leiksýningum ársins.
Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Mest lesið Emilíana Torrini einhleyp Lífið „Á erfitt með að gera mér í hugarlund eitthvað rómantískara“ Makamál Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið Sjarmerandi íbúð listakonu til sölu Lífið Stórstjörnur flykkjast í verkefni Baltasars Bíó og sjónvarp „Vinkonusambönd virka aldrei ef það er afbrýðisemi“ Lífið Aðventan með Lindu Ben: Mjúkir kanilsnúðar með valhnetukaramellu Jól Eiríkur og Guðrún selja eitt fallegasta hús Vesturbæjarins Lífið Kári og Erla vilja 330 milljónir fyrir lúxusíbúð við höfnina Lífið Fólkið sem fer yfir tíu tonn af fatnaði á dag Lífið Fleiri fréttir Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira