Innlent

Andlega veikir fangar gengið berserksgang á Hólmsheiði: "Ég tel að fólkið eigi ekki heima í fangelsi.“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Mikið álag er á starfsfólki og föngum á Hólmsheiði vegna andlega veikra fanga sem þar eru vistaðir. Nokkur tilfelli hafa komið upp á síðustu vikum þar sem fangarnir hafa gengið berserksgang í fangelsinu. Fangelsismálastjóri er óánægður með ástandið og segir fólkið ekki eiga heima í fangelsi.

Fangar sem glíma við geðsjúkdóma hafa ítrekað komið í umræðuna á undanförnum árum meðal annars vegna skorts á þjónustu við hópinn. Í lok síðasta árs sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í kvöldfréttum Stöðvar 2 að ástandið væri grafalvarlegt. Alvarlega andlega veikum föngum, sem jafnvel eru hættulegir sjálfum sér og öðrum, væri haldið lengur inni í fangelsi en en þörf væri á þar sem engin úrræði væru til staðar fyrir þá. 

„Við erum enn þá í vandræðum með að koma alvarlega veikum föngum á sjúkrahús. Það eru áætlanir hjá yfirvöldum að efla geðheilbrigðisþjónustu það breytir því ekki þegar menn eru mikið veikir þá fá þeir illa inni á geðdeildum,“ segir Páll. 

Þá sitji fangelsismálayfirvöld uppi með einstaklinga í slæmu ástandi en enginn starfandi geðlæknir er í fangelsunum og því lítil þekking til staðar.  Nýlega hefur ýmislegt gengið á í fangelsinu á Hólmsheiði.

„Svona tilvik koma reglulega upp þar sem fangar sem eru illa staddir ganga berserksgang,“ segir Páll og bætir við að nokkur slík tilfelli hafi komið upp síðustu vikur. Geðdeildin taki ekki alltaf við föngunum. Starfsfólki og samföngum líði ekki vel í slíku ástandi. 

„Þetta er mikið álag á starfsfólkið og ekki síður samfangana að vera með mjög andlega veika einstaklinga með sér. Ég er óánægður með það því ég tel að fólk sem er svona statt eigi ekki heima í fangelsi,“ segir Páll. 

Hann telur að stjórnvöld séu öll af vilja gerð að gera betur. Þetta snúist um peninga og forgangsröðun. „Það þarf bara sérstaklega deild fyrir hættulegt fólk, eða fólk sem er hættulegt sjálfum sér og öðrum og það er erill þarna eins og annars staðar og við það búum við,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×