Erlent

Fyrrverandi formaður Íhaldsflokksins kallar eftir afsögn May

Andri Eysteinsson skrifar
Ian Duncan Smith vill May í burt
Ian Duncan Smith vill May í burt Getty/Leon Neal
Kostir Íhaldsflokksins eru tveir eftir afhroð sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru í Bretlandi í vikunni samkvæmt Ian Duncan Smith, fyrrverandi formanni flokksins. Kostirnir eru annars vegar að Theresa May segi af sér eða henni verði steypt úr stóli forsætisráðherra og formanns flokksins.

Niðurstaða kosninganna, þar sem Íhaldsflokkurinn tapaði 1334 mönnum á landsvísu, var sú versta síðan 1995 fyrir Íhaldsmenn. May hefur verið gagnrýnd víða vegna framgöngu hennar í Brexit-málinu og hefur þrýstingurinn á forsætisráðherrann.

Eftir kosningarnar hafði May gefið út, ásamt Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins sem tapaði einnig fylgi í kosningunum, að flokkarnir myndu reyna að vinna saman að lausn í Brexit-deilunni.

Duncan Smith, sem var formaður flokksins á árunum 2001-2003 og er harður fylgjandi Brexit, sagði við BBC að margir Íhaldsmenn myndu aldrei samþykkja samning sem gerður yrði með samvinnu flokkanna. Duncan Smith sagði að May þyrfti að tilkynna um afsögn sína bráðlega ellegar yrði gerð atlaga að henni af þingmönnum Íhaldsflokksins.

Duncan Smith sagði einnig að eftir að úrslit kosninganna voru kunngjörð væri May í raun orðin bráðabirgðaforsætisráðherra (e.Caretaker prime minister) og hefði því ekki heimild til þess að semja við Verkamannaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×