Erlent

Útgöngubanni lýst yfir í kjölfar fleiri sprengjuárása

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi einnar árásarinnar í morgun.
Frá vettvangi einnar árásarinnar í morgun. Vísir/EPA
Að minnsta kosti tveir létust í enn einni sprengjuárásinni á gistiheimili í úthverfi borgarinnar Colombo á Sri Lanka í dag. Árásin er sú sjöunda í röð mannskæðra sprengjuárása á kirkjur og hótel í landinu í dag en nær 160 hafa látist árásunum það sem af er degi. Þá hafa fréttir borist af áttundu sprengjuárás dagsins og lýstu stjórnvöld í kjölfarið yfir útgöngubanni, sem standa mun yfir í tólf klukkustundir.

AFP-fréttaveitan hefur eftir lögreglu að tveir hafi látið lífið í sjöundu árásinni, sem gerð var á Tropical Inn-gistiheimilið í Dehiwela. Þá segir í frétt BBC að hinir látnu séu lögreglumenn. Gistiheimilið er töluvert íburðarminna en hin hótelin sem orðið hafa fyrir árásum í dag. Þau eru öll vinsæl lúxushótel, fjölsótt af ferðamönnum.

Samkvæmt upplýsingum frá AFP létust 35 útlendingar í árásunum, þar af eru bandarískir, breskir og hollenskir ríkisborgarar. Þá eru fleiri hundruð særðir en páskaguðsþjónustur stóðu yfir í kirkjunum þegar árásirnar dundu yfir. Að minnsta kosti 67 eru sagðir hafa fallið í árásinni á kirkju heilags Sebastíans í Negombo og tugir í hinum kirkjunum, sem eru í Colombo og Batticaloa.

Forsætisráðherrar Pakistan og Bretlands hafa báðir fordæmt árásirnar í dag.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á illvirkjunum en komið hefur fram að ríkislögreglustjóri Sri Lanka varaði undirmenn sína við því í síðustu viku að kaþólskar kirkjur í landinu væru nú skotmörk róttækra íslamista á vegum samtakanna National Towheeth Jama‘ath, NTJ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×