Í Garpsdal ætlar EM-Orka að reisa 35 vindmyllur en á Hróðnýjarstöðum áætlar Storm orka ehf. að reisa 24 vindmyllur.
Geta vindmyllurnar náð 180 metra hæð, sé miðað við spaða í efstu stöðu en í Garpsdal í Reykhólahreppi er áætlað að framleiða 130 megavött en 80 til 130 megavött á Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð. Rúmlega 30 kílómetrar eru á milli Garpsdals og Hróðnýjarstaða.
Bræðurnir Magnús og Sigurður Jóhannessynir keyptu jörðina að Hróðnýjarstöðum í ágúst árið 2017 en rúmum þremur vikum síðar var vilja- og samstarfsyfirlýsing undirrituð af sveitarstjórn og fyrirtækis bræðranna, Storms orku ehf, um þessar vindmyllur ef tilskilin leyfi fást.
EM Orka er íslenskt fyrirtæki í eigu EMP Holdings sem er sameiginlega í eigu EMP IN og Vestas en það síðastnefnda er einn stærsti vindmylluframleiðandi í heims með 94 gígavatta framleiðslugetu í 79 löndum. EMP er með höfuðstöðvar í Dublin á Írlandi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hafði skipað starfshóp um regluverk vegna vindorkuvera. Hópurinn skilaði skýrslu síðastliðið haust þar sem niðurstaðan var sú að ekki væri þörf á sérlöggjöf um vindorkuframleiðslu en hins vegar væri tilefni til tiltekinna breytinga á lögum og reglum.