Erlent

Legógengi leyst upp í Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Kínverska verksmiðjan framleiddi falsaðar Legóvörur í miklu magni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Kínverska verksmiðjan framleiddi falsaðar Legóvörur í miklu magni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA
Kínverska lögreglan hefur flett ofan af gengi sem framleiddi og seldi falsaða Legókubba fyrir um þrjátíu milljónir dollara. Fjórir hafa verið handteknir og lögðu lögreglumenn hald á hundruð þúsunda leikfanga, þar á meðal úr Stjörnustríðslínu Legó, sem falsararnir líktu eftir.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir kínversku lögreglunni að falsararnir hafi notað fleiri en tíu færibönd og níutíu mót sem þeir steyptu falsaða Legókubba í. Lögreglan gerði húsleit hjá leikfangaframleiðanda í borginni Shenzhen í suðurhluta landsins og fann þar um 630.000 fölsuð Lególeikföng.

Leikföngin voru seld undir vörumerkinu „Lepin“ og á margfalt lægra verði en frumgerðirnar. Varaforseti Legó í Kína segir að fyrirtækið hafi einnig áhyggjur af öryggi fölsuðu leikfanganna.

Kínversk yfirvöld hafa reynt að treysta hugverkarétt í landinu og hafa aldrei fleiri mál vegna hans ratað á borð dómstóla þar en í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×