Körfubolti

„Hneykslaður á að lið í efstu deild kvenna sé ekki með aðstoðarþjálfara“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sérstakt atvik kom upp undir lok fjórða leiks KR og Vals í undanúrslitum Domino's deildar kvenna á sunnudaginn. Valur vann leikinn naumlega, 81-84, og einvígið 3-1.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir kom Val í 81-84 þegar 2,8 sekúndur voru eftir af leiknum. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, spurði fólkið á ritaraborðinu hvort hann ætti leikhlé eftir. Svo reyndist vera og Benedikt bað um leikhlé. Þá var leiktíminn hins vegar runninn út.

Ef Benedikt hefði fengið leikhléið hefði KR átt innkast á vallarhelmingi Vals, í góðri stöðu og með nógu mikinn tíma eftir á klukkunni til að ná góðu þriggja stiga skoti á körfuna. Þessi misskilningur reyndist því afar dýr fyrir KR.

Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds voru undrandi á því að Benedikt væri ekki með aðstoðarþjálfara sem hefði yfirsýn yfir það hversu mörg leikhlé liðið ætti eftir.

„Af hverju er hann ekki með aðstoðarmann? Hvaða fokking grín er þetta? Í alvöru talað. Ég er svo hneykslaður á þessu, að lið í efstu deild kvenna sé ekki með aðstoðarþjálfara,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

„Þetta er risastórt mál. KR hefði getað ákveðið hver ætti að taka síðasta skotið,“ bætti Fannar Ólafsson við.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×