Guðmundur Þórarinsson lagði upp sigurmark Norrköping gegn Falkenberg í 4. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag. Lokatölur 4-3, Norrköping í vil.
Allt benti til þess að leikurinn myndi enda með jafntefli eftir að Falkenberg jafnaði í 3-3 á 87. mínútu. En þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma lagði Guðmundur upp mark fyrir Kasper Larsen sem tryggði Norrköping stigin þrjú.
Norrköping var manni færri síðustu 20 mínúturnar eftir að Jordan Larsson, sem skoraði tvö marka liðsins, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Þetta var fyrsti sigur Norrköping á tímabilinu. Liðið er í 6. sæti deildarinnar með fimm stig.
Kolbeinn Sigþórsson var ekki í leikmannahópi AIK sem tapaði, 2-1, fyrir Örebro á útivelli. AIK, sem er ríkjandi meistari, er með fimm stig í 5. sæti deildarinnar.
Þá gerðu Östersund og Elfsborg 1-1 jafntefli.
Fótbolti