Sport

Stelpurnar unnu stórsigur á Tyrklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí.
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí. Mynd/ihi.is
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí á enn þá möguleika á sæti í A-deild 2. deildarinnar á heimsmeistaramóti kvenna í íshokkí þegar aðeins lokaumferðin er eftir.

Íslensku stelpurnar unnu glæsilegan 6-0 sigur á Tyrklandi í dag en B-deild 2. deildarinnar fer fram þessa dagana í Brasov í Rúmeníu. Það má sjá tölfræðina hér.

Silvía Rán Björgvinsdóttir og Sunna Björgvinsdóttir voru báðar með þrennur í leiknum, önnur í mörkum og hin í stoðsendingum.

Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði þrennu í leiknum en hin mörkin skoruðu þær Kolbrún María Garðarsdóttir, Eva María Karvelsdóttir og Brynhildur Hjaltested.

Stoðsendingarnar áttu þær Sunna Björgvinsdóttir (3), Kolbrún María Garðarsdóttir (2), Silvía Rán Björgvinsdóttir, Ragnhildur Kjartansdóttir, Jónína Margrét Guðbjartsdóttir og Kristín Ingadóttir.

Íslenska liðið hafði fyrir leikinn unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum á mótinu en tapaði naumlega fyrir Nýja-Sjálandi. Síðasti leikurinn hjá íslenska liðinu er á móti toppliði Tævan.

Silvía og Sunna hafa komið að flestum mörkum í mótinu í þessum fjórum leikjum, Silvía Rán Björgvinsdóttir er með 8 mörk og 3 stoðsendingar en Sunna Björgvinsdóttir er með 1 mark og 8 stoðsendingar. Enginn leikmaður hefur skorað meira en Silvía Rán og gefið fleiri stoðsendingar en Sunna.

Úrslitin úr leikjum íslenska liðsins:

9-5 sigur á Rúmeníu

1-2 tap fyrir Nýja-Sjálandi

3-0 sigur á Króatíu

6-0 sigur á Tyrklandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×