Fótbolti

Paul Pogba: Þeir vilja örugglega sýna sig á móti heimsmeisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba í leik á móti Íslandi í vináttulandsleik í fyrra.
Paul Pogba í leik á móti Íslandi í vináttulandsleik í fyrra. Getty/Jean Catuffe
Heimsmeistarar Frakka eru í riðli með okkur Íslendingum í undankeppni EM 2020 og hefja leik í kvöld. Það eru átta mánuðir síðan að Frakkar lyftu heimsmeistarabikarnum í Moskvu og það gekk síðan ekki nógu vel hjá þeim í Þjóðadeildinni.

Paul Pogba mætti á blaðamannafund í gær fyrir leiki á móti Moldóvu og svo Íslandi í París eftir aðeins þrjá daga. Frakkar spila í Moldóvu í kvöld.





„Eftir að þú vinnur svona stóran titil þá er erfitt að ná sér tilfinningalega og andlega,“ sagði Paul Pogba en Frakkar urðu í öðru sæti í sínum riðli í Þjóðadeildinni þar sem Hollendingar fóru í úrslitin. Frakkar höfðu endaði í öðru sæti á EM 2016 en tóku síðan gullið á HM 2018.

„Það er okkar starf að sýna fagmennsku og við viljum vinna riðilinn og komast á EM,“ sagði Pogba en auk Frakka, Moldóva og Íslendinga eru í riðlinum Tyrkland, Albanía og Andorra.





Moldóvar hafa ekki unnið keppnisleik síðan 2013 og það búast allir við sigri Frakka í kvöld þótt þeir séu á útivelli. Pogba segir að franska liðið þurfi samt að passa sig. Pogba minnti síðan aðeins á Frey Alexandersson, aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins.

„Þeir eru að fara að spila á móti heimsmeisturunum og vilja örugglega sýna sig. Ef einhverjir halda að þessi leikur sé unninn fyrir fram þá ætti hinn sami að skoða tölfræðina. Í síðustu átta heimaleikjum sínum hafa þeir aldrei tapað með meiru en tveimur mörkum,“ sagði Pogba.

„Við þurfum að halda einbeitingunni og taka á þessu verkefni af fullri alvöru. Við erum mættir til að vinna leikinn en erum ekki að hugsa að hann sé þegar unninn,“ sagði Pogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×