Fótbolti

Zidane mögulega tilkynntur sem næsti þjálfari Real Madrid í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane með bikarinn með stóru eyrun sem hann vann þrjú ár í röð sem stjóri Real Madrid.
Zinedine Zidane með bikarinn með stóru eyrun sem hann vann þrjú ár í röð sem stjóri Real Madrid. Getty/Angel Martinez
Fréttir frá Spáni herma að Zinedine Zidane verði seinna í dag tilkynntur sem næsti þjálfari liðsins.

Spænskir miðlar og aðrir segja frá því að Real Madrid ætli að tilkynna um endurkomu Zinedine Zidane seinna í dag.

Jose Mourinho var orðaður við Real Madrid en nú virðist sem að Florentino Pérez, forseta Real Madrid, hafi tekist að sannfæra Frakkann um að taka aftur við Real liðinu.





Ekkert hefur gengið hjá Real Madrid síðan að Zinedine Zidane hætti með liðið og liðið er nú út úr öllum keppnum þótt að það séu meira en tveir mánuðir eftir af tímabilinu.

Það eru aðeins níu mánuðir síðan Zidane hætti með Real liðið en liðið sem hann tekur við er allt annað lið en stjórnaði í tvö og hálft ár. Mestu munar um fjarveru Cristiano Ronaldo sem var seldur til Juventus síðasta sumar.

Zinedine Zidane tók við Real Madrid af Rafael Benítez í janúar 2016 og undir hans stjórn vann liðið Meistaradeildina um vorið.

Alls vann Real Madrid níu titla undir stjórn Zidane áður en hann tilkynnti það óvænt þremur dögum eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar að hann væri hættur með liðið.







Hann er eini þjálfarinn sem hefur unnið Meistaradeildina þrjú ár í röð og þá vann liðið einnig heimsmeistarakeppni félagsliða tvö ár í röð undir hans stjórn.

Real Madrid vann spænsku deildina þó aðeins einu sinni undir hans stjórn (2016-17) en hann tók reyndar við liðinu í slæmri stöðu á fyrsta tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×