Talið er að álftin hafi fest gogginn í dósinni fyrir um viku síðan og líklegt þykir að dósin hafi rifnað þegar álftin reyndi að berja hana af sér. Íbúar við Urriðaholtsvatn létu vita af álftinni og fóru starfsmenn Náttúrufræðistofnunar á svæðið í morgun.
„Við fundum álftina þar sem hún lá uppi í mýri, deyjandi. Hún var búin að leggjast fyrir og var að fram komin. En síðan með góðra manna hjálp fékkst lánaður bátur og skipstjóri og við sigldum álftina uppi á Urriðakotsvatni, þar sem hún var," segir Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. „Við náðum henni, klipptum dósina af og skiljum hana nú eftir hérna í húsdýragarðinum."
Sjá einnig: Álftin laus við Red Bull dósina og komin í Húsdýragarðinn

Þrátt fyrir að álftin hafi ekki getað nærst í nokkra daga var hún í ágætum holdum og mældist átta kíló í morgun en það er við neðri mörk meðalþyngdar fuglsins. Tungan slapp og þótt sárin á skoltinum séu nokkuð djúp eru batahorfur ágætar. „Hér í friði og ró ættu sárin að gróa. Ef hún étur eðlilega ætti hún að eiga lengri lífdaga auðið," segir hann.
Ólafur segir raunir álftarinnar vera ágætis áminningu. „Þetta er stundar hirðuleysi. Einhver er að drekka orkudrykk. Þgar hann er búinn úr dollunni, án þess að hugsa um afleiðingarnar, kastar hann henni frá sér. Hvar sem það var. Eftirleikurinn er þessi. Álftarkjáninn festir gogginn í þessu og hefur liðið fyrir í meira en viku," segir Ólafur.