Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Valur 75-94 | Valur valtaði yfir toppliðið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Blue-Höllinni í Keflavík skrifar
vísir/bára
Valur hafði betur gegn toppliði Domino‘s deildar kvenna, Keflavík, í stórleik í toppbaráttunni suður með sjó. Sigurinn var sá níundi í röð hjá Val í deildinni.

Gestirnir í Val byrjuðu leikinn mun betur og var Keflavík í mestu vandræðum með að koma boltanum í körfuna í upphafi. Bæði lið voru þó alls ekki að spila sinn besta leik í upphafi.

Fyrsti leikhluti var nokkuð hægur og mikið um klaufagang, lélegar sendingar, leikmenn náðu ekki að grípa boltann og dripluðu honum frá sér.

Það var hins vegar allt annað að sjá til Keflavíkurliðsins í upphafi annars leikhluta og voru þær fljótar að vinna upp níu stiga forskot Vals. Þegar Katla Rún Garðarsdóttir minnkaði muninn í eitt stig 28-29 kviknaði þó aðeins á Valskonum á ný.

Eftir það var nokkuð jafnræði með liðunum út annan leikhlutann, Valur fór þó með fjögurra stiga forskot inn í hálfleikinn 36-40.

Seinni hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri endaði, jafnt var með liðunum og mikil spenna í leiknum. Valskonur voru þó alltaf skrefinu á undan. Í síðasta leikhlutanum náðu Valskonur að finna smá auka gas á kútnum og þær kláruðu leikinn að lokum nokkuð sannfærandi, 75-94.

Af hverju vann Valur?

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komu sér fljótt í þægilega forystu. Þrátt fyrir að Keflavík hafi náð að sækja á þær þá var Valur alltaf með frumkvæðið. Á kafla í þriðja leikhluta voru liðin að skipta með sér forystunni en Valur komst betur úr þeirri baráttu og gestirnir virtust einfaldlega vera með meiri kraft í lokin.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og svo oft áður átti Helena Sverrisdóttir mjög góðan leik. Í kvöld voru það sérstaklega þriggja stiga skotin sem láku niður hjá henni,  hún kláraði leikinn með sex þriggja stiga körfur og samtals 32 stig. Heather Butler átti einnig stórfínan leik fyrir Val.

Hjá Keflvíkingum var Birna Valgerður Benónýsdóttir stigahæst og Brittanny Dinkins fylgdi fast á hæla hennar. Þær tvær voru drifkrafturinn í sókn Keflavíkur og þá skilaði Bryndís Guðmundsdóttir góðu framlagi.

Hvað gekk illa?

Í upphafi gekk allt illa hjá Keflavík í sóknarleiknum og skoruðu þær bara fjögur stig á fyrstu fimm mínútum leiksins. Það sama gerðist svo fyrir Val í upphafi annars leikhluta. Það sem vantaði helst upp á hjá Keflavík var þó baráttan.

Hvað gerist næst?

Valur fær Stjörnuna í heimsókn í Origohöllina á Hlíðarenda á laugardaginn. Keflavík sækir botnlið Breiðabliks heim í Kópavoginn á sama tíma.

Darri Freyr Atlasonvísir/vilhelm
Darri: Er ekki Keflavík í efsta sæti? Þær eru bestar í dag

„Við gerðum smá áherslubreytingar í hálfleik sem að gáfu okkur betri tækifæri til þess að vinna,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, aðspurður hvað hafi skilað hans konum sigrinum í kvöld.

„Við fækkuðum töpuðum boltum og vorum að fá betri skot sóknarlega. Svo vorum við að tapa baráttunni, þó mér finnst það alltaf svolítið lúðalegt, í einhverju dóti, vorum ekki að bumpa á bakscreenum og svoleiðis, en við náðum að laga það.“

„Mikið hrós til stelpnanna að bregðast svona við því sem við vorum að ræða í hálfleiknum.“

Valskonur byrjuðu leikinn mun betur sem hjálpaði til þegar verr fór að ganga í leiknum.

„Þetta var eitthvað sem við töluðum um fyrir leikinn, við vorum búnar að koma svolítið rólegar út í síðustu þremur leikjum og það var flott að taka þetta frumkvæði. Sömuleiðis þegar þær klóruðu sig inn í leikinn þá fannst mér við heldur værukærar á tímabili.“

Darri vildi ekki samþykkja að hans lið væri það besta á landinu um þessar mundir þrátt fyrir að hafa unnið síðustu níu deildarleiki.

„Er ekki Keflavík í efsta sæti? Ég held að þær séu bestar í dag. Við ætlum að byrja á því að ná að verða besta liðið á Íslandi með því að komast í þetta efsta sæti,“ sagði Darri Freyr.

Jón Guðmundsson fer yfir málin með leikmönnum sínum.Vísir/Bára
Jón: Baráttan var ekki til staðar

„Við vorum að spila á móti frábæru liði. Við börðumst ekki í 40 mínútur. Við vorum að spila flott inn á milli en svo bara var baráttan ekki til staðar og þegar þú ert að spila á móti svona frábæru liði eins og Val þá taparðu,“ sagði Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.

Jón var ekki sammála því að byrjunin á leiknum hefði gert Keflavík erfitt fyrir.

„Ég held að byrjun leiksins hafi ekki haft neitt með þetta tap að gera. Við opnum þær trekk í trekk í byrjun leiks en vorum klaufar að nýta okkur það ekki. Við komumst yfir í þriðja leikhluta svo byrjunin hafði kannski ekki svo mikið að segja.“

„Við hættum svo að berjast, um leið og við hættum að berjast þá er leikurinn búinn.“

Hvað tekur Jón jákvætt úr leiknum? „Það er fullt. Við erum að spila á móti frábæru liði og spiluðum nokkuð vel í tvo leikhluta. En við þurfum að spila lengur en það á móti svona frábæru liði,“ sagði Jón.

Helena Sverrisdóttir er uppalin hjá Haukum en fór í Val þegar hún kom heim úr atvinnumennsku fyrr í veturVísir/Bára
Helena: Stigum bara aðeins á bensínið

„Við stigum algjörlega upp í seinni hálfleik og náðum að stoppa þær fimm á fimm og sóknin okkar fylgdi vel á eftir,“ sagði Helena Sverrisdóttir í leikslok.

„Mér fannst margir leikmenn spila vel í dag og við vorum að spila hörku liðsbolta.“

Hvað fannst Helenu hafa skilað því að Valsmenn náðu að breyta jöfnum leik í það sem verður að segjast algjört burst?

„Við stigum bara aðeins á bensínið. Mér fannst við spila ágætis vörn í þriðja leikhluta en það vantaði alltaf sentímeter upp á að sækja boltann eða hvernig það var. Við náðum að hreinsa þetta til og spiluðum bara geggjaða vörn.“

„Þegar við gerum það þá fáum við svo mikið sjálfstraust í sókninni.“

Sjálfstraustið er líklega í botni í Valsliðinu sem virðist algjörlega óstöðvandi um þessar mundir.

„Við erum samt bara „humble“ og vitum að hver einasti leikur er rosalega mikilvægur. Við erum bara að klifra hægt og rólega upp þessa töflu. Við erum líka að hugsa um bikarinn, en í þessum deildarleikjum þá erum við hundrað prósent einbeittar og vitum hvar markmiðið okkar liggur, það er bara ein leið,“ sagði Helena Sverrisdóttir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira