Körfubolti

Tryggvi byrjaði í sterkum sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tryggvi Snær Hlinason í leik með íslenska landsliðinu.
Tryggvi Snær Hlinason í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty
Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Monbus Obradoiro unnu sterkan sigur á Unicaja í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta. Tryggvi var í byrjunarliði Obradoiro í leiknum.

Fyrir leikinn var Obradoiro í 12. sæti deildarinnar með sex sigra úr sextán leikjum. Unicaja var hins vegar í 4. sæti með 11 sigra.

Tryggvi byrjaði fyrir Obradoiro og spilaði í heildina tæpar tuttugu mínútur. Á þeim setti hann sjö stig, tók tvö fráköst og átti eina stoðsendingu.

Leikurinn var mjög jafn í fyrri hálfleik, munurinn varð mestur sex stig Unicaja í vil. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 41-45 fyrir gestina.

Gestirnir héldu forystu sinni þriðja leikhluta en heimamenn í Obradoiro náðu þó að minnka muninn niður í eitt stig fyrir síðasta fjórðunginn. Snemma í lokafjórðungnum jafnaði Obradoiro og tók svo forystuna þökk sé tveimur þristum frá Albert Sabat.

Það var allt í járnum út leikinn, Brian Roberts hefði getað komið Unicaja yfir þegar níu sekúndur lifðu af leiknum en skot hans geigaði. Ben Simons fékk í staðinn tvö vítaskot sem hann setti niður og tryggði Obradoiro þriggja stiga sigur 89-86.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×