Erlent

Mannskaði af völdum hvirfilbyls sem gekk yfir Kúbu

Kjartan Kjartansson skrifar
Vindurinn hreif allt lauslegt með sér, þar á meðal bifreiðar.
Vindurinn hreif allt lauslegt með sér, þar á meðal bifreiðar. AP/Ramón Espinosa
Að minnsta kosti þrír fórust og 172 slösuðust þegar skýstrókur og úrhellisrigning gekk yfir austurhluta Havana á Kúbu í nótt. Tré voru rifin upp með rótum, rafmagnsstaurar brotnuðu og lausamunir fuku um í hamförunum.

Vindurinn skemmdi byggingar og tjón varð af völdum flóða á láglendum svæðum í Havana. Rafmagnslaust hefur verið sums staðar eftir hvirfilbylinn. Miguel Díaz-Canel, forseti Kúbu, segir að tjónið sé „verulegt“.

AP-fréttastofan hefur eftir Julio Menéndez, veitingamanni, að útlitið í 10. októbershverfinu í Havana sé eins og „eftir hryllingsmynd“.

Rýma þurfti sjúkrahús á sjö hæðum þar sem rúður soguðust úr gluggakvörmum og koma þurfti sjúklingum, þar á meðal nýbökuðum og verðandi mæðrum, í skjól fyrir hamförunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×