Gjöldin eru greidd rafrænt en mælt er með því að skrá bílinn á veggjald.is og þá skuldfærist af korti í hvert skipti sem ekið er um göngin. Skráðum notendum bjóðast afsláttarkjör. Því fleiri ferðir sem eru keyptar greiðist lægri upphæð.
Tíu ferðir á fólksbíl kosta þannig 12.500 krónur eða 1250 krónur hver ferð. Hægt er að kaupa 100 ferðir á 70 þúsund krónur sem svarar til 700 krónu gjalds á ferð.
Þeir sem eru sjaldan á ferð um göngin geta líka keypt staka ferð á veggjald.is eða í símaappi innan við þremur tímum áður en ekið er í gegn eða þremur tímum eftir. Ef ekið er í gegnum göngin án greiðslu er gjaldið innheimt af eiganda eða umráðamanni ökutækisins, svo sem bílaleigu sem þannig rukkar erlenda ferðamenn.