Muhammed fimmti, konungurinn af Malasíu, hefur sagt af sér embætti eftir aðeins tvö ár í starfi. Engin ástæða hefur verið gefin fyrir afsögninni.
Hinn 49 ára gamli konungur tók við völdum árið 2017 og átti hann að gegna embætti í fimm ár. Konungurinn í Malasíu er kjörinn af níu ríkisstjórum sem mynda sérstakt ríkisráð. Aðeins þeir sem eru ríkisstjórar koma til greina og eftir að hver konungur hefur lokið kjörtímabili sínu má hann ekki bjóða sig aftur fram fyrr en að allir hinir hafi gert slíkt hið sama.
Ákvörðun Muhammed þykir koma nokkuð á óvart enda er þetta í fyrsta skipti síðan Malasía öðlaðist sjálfstæði árið 1957 sem konungur segir af sér embætti. Konungsembættið í Malasíu er að mestu táknrænt og hefur konungurinn lítil sem engin eiginleg völd, þrátt fyrir að vera þjóðhöfðingi Malasíu.
Fjölmiðlar eystra hafa greint frá því að Muhammed hafi í haust gifst hinni 25 ára gömlu rússnesku fegurðardrottningu Oksana Voevodina sem kjörinn var ungfrú Moskva árið 2015.
Ekkert hefur þó fengið staðfest um það en í nóvember sagðist Mahatir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu, ekki hafa fengið neinar upplýsingar um hið meinta brúðkaup.
Tottenham
Newcastle