Erlent

Akihito Japanskeisari hélt síðustu afmælisræðu sína

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Michiko keisaraynja og Akihito keisari í afmælisveislunni.
Michiko keisaraynja og Akihito keisari í afmælisveislunni. vísir/getty
Akihito Japanskeisari er þakklátur fyrir að ríkið hafi ekki dregist inn í neina styrjöld á þrjátíu ára valdatíð sinni. Keisarinn, sem fagnaði 85 ára afmæli í gær, lét þessi ummæli falla í síðustu afmælisræðu sinni en Naruhito krónprins tekur við veldinu í apríl.

Keisarinn vottaði þeim fjölmörgu Japönum sem hafa slasast eða misst ástvini í náttúruhamförum sem riðið hafa yfir á árinu sömuleiðis samúð og þakkaði öllum fyrir stuðninginn í gegnum tíðina.

Nærri hundrað þúsund vottuðu Japanskeisara virðingu sína í gær er hann flutti afmælisræðuna.

Akihito hefur, að því er kom fram í umfjöllun BBC, varið tíma sínum í embætti að miklu leyti í að biðjast afsökunar á gjörðum Japana undir stjórn Hirohito föður hans í seinni heimsstyrjöldinni. Japanski herinn fór fram af mikilli hörku, einkum í Kína og á Kóreuskaga. Keisarinn sem slíkur hefur þó engin pólitísk völd og er staðan einungis táknræn.

Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn til þess að stíga til hliðar sjálfviljugur í nærri tvær heilar aldir. Keisarinn hefur þurft að gangast undir hjartaskurðaðgerð og meðferð vegna ristilkrabbameins.

Valdatíð Akihito er kölluð Hesei-tímabilið í Japan. Segja má, þótt það sé nokkur einföldun, að Hesei þýði einfaldlega friður. Merkingin á bakvið heitið er sú að Akihito tók við að seinni heimsstyrjöld lokinni og hefur setið á keisarastólnum á friðartímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×