Stéttarfélögin þrjú klufu sig nýverið út úr samfloti með Starfsgreinasambandinu (SGS) og vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara. Fyrsti fundur þrætuaðila verður á morgun.
„Fundurinn er hugsaður til gagnaöflunar þar sem sáttasemjari mun kalla eftir kröfugerðum okkar og þeirra. Ég vænti ekki stórra tíðinda af þessum fundi,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur segir þó að félögin muni reyna að knýja SA til að svara grundvallarspurningum er lúta að kröfugerð félaganna.
„Í gegnum tíðina hefur það gerst að samningar hafa kannski ekki náðst fyrr en fjórum eða fimm mánuðum eftir að forveri þeirra rennur út. Dragist viðræður í mánuð þýðir það að launafólk verður af allt að fjórum milljörðum,“ segir Vilhjálmur.

„Samkomulag um afturvirkni mun gera okkur kleift að nýta tímann vel. Verði fallist á það mun verða meira andrými til að semja. Ef ekki þá verður að hraða samningum. Afleiðingarnar geta orðið slæmar ef sátt næst ekki,“ segir Vilhjálmur.
„Á fundinum munum við fara með ríkissáttasemjara yfir gögn sem við höfum áður farið yfir með félögunum þremur og SGS. Þar eru rúmlega 200 síður stútfullar af tillögum og greiningum frá SA. Nú hefst þetta formlega ferli en samtímis höldum við áfram að semja við önnur félög sem ekki hafa vísað málinu til sáttasemjara. Gangurinn í þeirri vinnu er mjög góður,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.