Fótbolti

Henderson: Alisson, ég elska þig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson Becker með Fabinho eftir leik.
Alisson Becker með Fabinho eftir leik. Vísir/Getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, faðmaði markvörðinn sinn Alisson Becker innilega eftir sigurinn á Napoli í gær en hann var ekki hættur.

Alisson Becker bjargaði Liverpool liðinu með stórkostlegri markvörslu í blálokin en hefði Napoli skorað þá hefði Liverpool þurft að skora tvö mörk á lokakafla leiksins.

Liverpool klúðraði fjölda dauðafæra í leiknum, aðallega Sadio Mane, en hetjan var á endanum brasilíski markvörðurinn sem hélt einbeitingu sinni út leikinn og hélt hreinu í tólfta sinn í búningi Liverpool.

Jordan Henderson tjáði tilfinningar sína til Alisson Becker á Instagram.







„Annað sérstakt kvöld á Anfield. Andrúmsloftið var stórkostlegt og frammistaðan var í takt við það. Áfram í sextán liða úrslitin. Alisson Becker, ég elska þig,“ skrifaði Jordan Henderson á Instagram síðu sína.  

Alisson fékk líka eitt lítið sætt hjarta í kaupbæti frá fyrirliða sínum.

Það er öruggt að fleiri en Jordan Henderson eru í skýjunum með Alisson Becker og það sem hann hefur bætt við þetta Liverpool-lið. Alisson Becker er aðeins búinn að fá á sig 13 mörk í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.

Liverpool borgaði 67 milljónir punda fyrir brasilíska markvörðinn í sumar en það sér örugglega enginn stuðningsmaður félagsins eftir þeim peningum í dag.

Fyrir vikið er Liverpool-liðið á toppnum í ensku úrvalsdeildinni og komið áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Markvarsla Alisson Becker á úrslitastundu.Vísir/Getty
Alisson Becker og knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×